144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér er lögð fram en harma um leið að hafa ekki getað verið meðflutningsmaður þar sem ég var ekki á þinginu en varamaður minn á þingi, Ólína Þorvarðardóttir, er meðflutningsmaður.

Ég lít á þessa tillögu þannig að fyrst og fremst sé verið að reyna að ýta þessu verkefni áfram skref fyrir skref eftir að samstaða náðist um það á síðasta þingi að byggja ætti spítala. Þá var það þar með ákveðið. Komið hefur fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að ekki sé lengur ágreiningur um staðsetningar eða neitt slíkt og raunar heldur ekki um umfangið og þá undirbúningsvinnu sem átt hefur sér stað. Eini þröskuldurinn sem eftir er sé fjármögnunin og hvenær hægt verði að hefja framkvæmdir.

Hér er gerð tillaga um að búa til hóp sem reynir að þoka málunum áfram í þeirri sátt sem náðist á síðasta þingi, vegna þess að það skiptir auðvitað miklu máli að þetta mál sé ekki pólitískt bitbein á þinginu. Í rauninni er alveg ótrúlegt að það skuli hafa orðið það. Við höfum verið að rifja það upp að fjöldi ráðherra frá nánast öllum flokkum sem þá áttu sæti á þingi, kom að málinu, stýrði vinnunni eða átti heilbrigðisráðherra og barðist fyrir þessu máli. Það gildir um Sjálfstæðisflokkinn, sem átti formennsku í undirbúningsnefndum og einnig ráðherra, það gildir um Framsóknarflokkinn og um Vinstri græna og Samfylkingu. Þetta hefði því aldrei átt að verða mikið bitbein.

Þegar málið kom í þingið í þessari lotu var búið að vinna tillögur og annað. Þá var mikilvægi spítalans náttúrlega lagt fram sem rök í málinu og allt það sem fram kemur í greinargerð, en samtímis var lögð fram mjög vönduð greinargerð sem unnin var af starfsmönnum spítalans og ráðgjöfum þeirra og síðan erlendum fyrirtækjum sem höfðu reynslu af byggingum nýrra spítala og kostum þess að taka nýja spítala í notkun. Var það metið þannig að hagræðingin og sparnaðurinn eingöngu við breytingar á byggingunum, þ.e. að færa starfsemina á einn stað, koma henni — ég segi nú ekki undir eitt þak, en inn á eitt svæði, væri einhvers staðar í kringum 2,6–3 milljarða kr. Fjárlaganefnd sem fjallaði um málið á sínum tíma kallaði eftir því að áður en næsta skref yrði tekið mundi þingið fara yfir útreikningana, leggja mat á þá og skoða síðan hvort þeir væru ekki réttir. Því má ekki undir neinum kringumstæðum rugla saman við það að það vantar fjármagn inn á spítalann til rekstrar daglegrar þjónustu, það er alveg rétt. En bara það að koma starfseminni á einn stað þar sem allar leiðir styttast, öryggi eykst og hægt er að bæta við þjónustuna og minnka flutninga á milli stofnana innan bæjar, mundi skila 2,6–3 milljörðum kr. Sá ávinningur kemur ekki af neinum öðrum aðgerðum.

Ég er einn af þeim sem þurftu að bera ábyrgð á verulegum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eftir hrun. Við gerðum okkur fyllilega grein fyrir því að of langt var gengið strax árið 2012. Þess vegna var byrjað að gefa til baka í fjárlögunum 2013. Ég hef ítrekað sagt frá því í þessum ræðustól að ég tel að heilbrigðismálin, sem taka núna í kringum 8,8% af landsframleiðslu, tóku mest um 9,5%, eigi að fara aftur upp í 9,5%. Og nú þegar landsframleiðslan eykst er sorglegt að sjá að hlutdeild Landspítalans og heilbrigðiskerfisins í landsframleiðslunni eykst ekki. Það ber ekki vott um þann forgang sem margir hæla sér af og segja að forgangsraðað hafi verið í þágu heilbrigðisþjónustu. Það hefur vissulega verið bætt við eftir að fjárlögin komu fram. Það var milljarðaniðurskurður til viðbótar í fjárlögum fyrir 2014 en þá tók þingið sig til og breytti því og bætti verulega í, það var hið besta mál. En hluti af því sem vantaði, sem varð til þess að fyrrverandi forstjóri sagði af sér, var að gefa skilaboð inn í framtíðina, þ.e.: Hvert stefnum við? Hvað ætlum við að gera? Heilbrigðisstarfsmenn og samfélagið allt hafði tekið á sig gríðarlega mikinn niðurskurð á erfiðum tímum. Þá hefði þurft að gefa fólki jákvæð fyrirheit um hvert við stefnum og um uppbyggingu.

Því miður hefur slíkt ekki komið fram enn þá. Eitt af því sem hefði þurft að segja er: Við ætlum að ráðast í nýbyggingu, við ætlum að bæta aðstöðuna, við ætlum að tryggja að ný tæki komist inn. Við ætlum að búa þannig um hlutina að við getum tekið á móti áföllum vegna sjúkdóma og annars slíks, eða réttara sagt við getum hindrað að það verði sjúkdómar inni á sjúkrahúsum sem eru erfiðir viðfangs eins og spítalinn hefur lent í á undanförnum vikum.

Þetta snýst í rauninni allt saman um að komast af stað með þessa tvo fyrstu áfanga, þ.e. meðferðarkjarnann og rannsóknarstofuhúsið. Það tvennt mundi leiða til þess að hægt væri að færa allt inn á Hringbrautarreitinn, alla þjónustuna sem er uppi á Borgarspítala. Það væri gríðarlega stórt skref og margt af því sem verið er að bíða eftir mundi nást með því.

Ég ætla ekki að fara yfir allar þær röksemdir sem komið hafa fram í umræðu um þetta mál en ætlast til þess að þeir sem lagt hafa mat á stöðuna fari yfir feril málsins, skoði útreikninga á því hvaða hagræðing felst í því bara að byggja spítalann og koma honum í notkun, sem er auðvitað hluti af því sem mun borga þessa byggingu að töluverðu leyti eða a.m.k. að ákveðnum hluta.

Nú er búið að stofna félag sem heitir Spítalinn okkar, sem berst fyrir því að ýta þessu máli áfram. Það er mikilvægt að við sameinumst um það. Það þarf líka að tryggja að rangfærslur um að Landspítalanýbyggingum eða breytingum á byggingum, endurbyggingum og byggingum sé stefnt gegn landsbyggðinni. Það er ekki þannig. Ég held að menn eigi einmitt að tala um Landspítalann sem þjóðarsjúkrahús, sem okkar sameiginlega sjúkrahús. Fram kemur í öllum tölum að verulega stór hluti af þeim sem nýta spítalann koma af landsbyggðinni. Það þýðir þó ekki að ekki þurfi að halda uppi þjónustunni úti um allt land eins og hægt er, en sérhæfðu verkefnin verða alltaf hér. Þarna verður sérfræðiþekkingin mest og ákveðnir hlutir verða aldrei unnir nema hér og sumir sjúklingar verða jafnvel að fara til útlanda, eins og menn vita. En mun færri sjúklingar þurfa að fara til útlanda ef við getum bætt aðstöðuna á þessu nýja sjúkrahúsi.

Tillagan sem hér er til umræðu er fyrst og fremst um að leita leiða. Við höfum heyrt að lífeyrissjóðirnir geti fjármagnað þetta. Við höfum heyrt hugmyndir frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, hann kemur nú vonandi hér, hann var á mælendaskrá, ég veit ekki hvort hann er þar enn þá. Hann hefur verið með vangaveltur um það ef við hefðum haldið áfram með sykurskattinn gætum við byggt nýjan spítala. Bara 0,5% lækkun á tekjuskatti þýðir 5 milljarðar á ári sem dreifist þannig að hún skilar örfáum hundraðköllum eða þúsundköllum til millitekjuhópanna. Ég er alveg handviss um að það fólk hefði allt verið tilbúið að segja: Við skulum fresta þessari lækkun á meðan við erum að borga nýjan spítala og bæta heilbrigðisþjónustuna.

Við eigum að geta náð þjóðarsátt um að fjármagna þetta. Tillagan er til þess að leita að þeirri sátt og ég vona að hún fái góða afgreiðslu og verði samþykkt hér.