144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[19:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, við erum farin að syndga svolítið upp á náðina. Ég fagna þessari tillögu eins og þeir sem hér hafa talað og tel að hún sé afskaplega góð viðbót við aðra þjónustu sem við höfum eða viljum reyna að koma á. Það kemur fram í greinargerðinni að þær leiðir sem hér eru taldar upp hafi víða lofað mjög góðu og við eigum auðvitað ekki að efast um að svo geti líka orðið hér á landi, bæði í heilsugæslunni og á sjúkrahúsunum.

Inntakið er að gera þjónustuna skilvirkari og að draga úr kostnaði, það er eitt af því sem við erum alltaf að reyna að takast á við. Með hækkandi aldri þjóðarinnar eykst kostnaðurinn og þetta er kannski ein af þeim leiðum sem gæti dregið úr honum. Það er sérstaklega áhugavert, í ljósi þess hvernig landið okkar er í byggð, að fjarheilbrigðisþjónusta geti nýst í hinum dreifðu byggðum þar sem fólk stendur víða frammi fyrir því að þjónusta hefur verið skert og læknir er kannski ekki á staðnum heilu vikurnar.

Hugsunarháttur okkar hefur breyst varðandi aukna notkun tækninnar og þessi hugtök, hvort sem það er fjarlækningar, fjarhjúkrun, fjarheilbrigðisþjónusta eða hvað það er. Maður þarf svolítið að hugsa um að þetta er ekki bara tækniþróun heldur þarf kannski hugarfarsbreyting að eiga sér stað. Það er hægt að vinna verkin með öðrum hætti en við erum vön. Mér finnst að margir þurfi að temja sér þá nýju hugsun.

Hvað varðar heilbrigðisþjónustu okkar á nýrri öld þá erum við endalaust að fá upplýsingar og til eru gögn sem við þurfum að nýta okkur. Við þurfum að breyta formi heilbrigðisþjónustunnar í þá veru sem hér er verið að leggja til. Við erum talin ein af þeim þjóðum sem eru einna fremstar í notkun netsins þó að það sé kannski ekki alls staðar aðgengilegt eins og hér hefur ítrekað komið fram. Auðvitað erum við kannski fyrst og fremst að tala um einhverja kjarna þar sem þetta er framkvæmanlegt en það styttir samt og breytir aðgengi fólks að þjónustunni.

Ég held að mörg tækifæri leynist í því að nota netið eða fjarfundi og allt slíkt til þess að gera heilbrigðisþjónustuna aðgengilegri fyrir alla. Við ættum, eins og Norðurlöndin og aðrir, að geta innleitt þetta og ég vona svo sannarlega, ég tek undir það, að málið fái skjóta afgreiðslu í velferðarnefnd. Mér sýnist fulltrúar allra þingflokka vera á tillögunni og það ætti að greiða fyrir málinu, það snýst fyrst og fremst um að setja fram aðgerðaáætlun.

Ég tek undir tillöguna og vona að við eigum góða og málefnalega umræðu um hana.