144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um þetta mál eins og sést á því að ég er með skriflega fyrirspurn frá honum í meðferð, fyrirspurn sem ég er að leggja lokahönd á að svara. Varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður nefndi er það rétt að í vor skilaði atvinnuveganefnd þingsins nefndaráliti sínu, var með skýrslu ráðgjafarhópsins til meðferðar. Í framhaldi af því átti ég viðræður við breska orkumálaráðherrann þar sem við fórum yfir þessi mál. Eins og margoft hefur komið fram kom þar fram áhugi Breta á þessu viðfangsefni en jafnframt kom það skýrt fram hjá breska ráðherranum að hann hafði skilning á því að við þyrftum að ræða þetta hér innan lands og gera ýmsar athuganir, vegna þess að bæði atvinnuveganefndin og sú ráðgjafarnefnd sem hafði málið til umfjöllunar benti á að við þyrftum að vinna frekari vinnu innan lands. Það er akkúrat það sem við erum að gera, eins og mun koma ítarlegar fram í því svari sem ég er að undirbúa til hv. þingmanns.

Þar er um að ræða að við erum búin að kortleggja átta verkefni sem við erum ýmist búin að setja af stað eða erum að fara af stað með. Hvað varðar spurningu þingmannsins um könnunarviðræður við Bretland tel ég ekki tímabært á þessu stigi málsins, áður en við höfum sjálf aflað okkur þeirra upplýsinga sem ég nefndi, að fara í viðræður, hvorki við bresk stjórnvöld né aðra en við erum í góðu sambandi við þarlend yfirvöld og erum að vinna þetta mál mjög vel. Það er komið í góðan farveg.