144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

stytting tímabils atvinnuleysisbóta.

[10:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Um næstu áramót hyggst ríkisstjórnin stytta það tímabil sem atvinnulausir geta verið á bótum úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Tilgangur þessarar styttingar er sá einn að spara 1.130 millj. kr. Þetta er framlag velferðarráðuneytisins, eða félagsmálaráðherra réttara sagt, til þess að loka fjárlagagatinu sem búið var til með því að létta sköttum af auðmönnum og af útgerðinni í landinu. Af þessu tilefni langar mig að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu er um að ræða 600–700 manna hóp, en sem betur fer er nú sýnt að þetta mun ekki verða nema 500–520 manns, sem er gott fyrir alla nema kannski hæstv. ráðherra, vegna þess að með því minnkar að sama skapi sparnaðurinn sem hún á að skila í gatið og það verða ekki 1.130 milljónir heldur rúmlega milljarður.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hún að bregðast við þessari hagræðingarkröfu? Hvar ætlar hún að taka 100 milljónir og skera niður í velferðarráðuneytinu til þess að skila sínu í gatið? Það eru 500–520 manns sem fara af bótum um áramót. Hvaða fólk er þetta? Eru þetta konur? Eru þetta karlar? Á hvaða aldri er það? Hvar er greiningin á þessum hópi? Hvar býr þetta fólk?

Samband íslenskra sveitarfélaga telur að þessi aðgerð ein muni leiða til 500 millj. kr. kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin í landinu. Við sem hér erum inni og fleiri vitum, reyndar vita það allir að þau sveitarfélög þar sem atvinnuleysi er mest og hefur verið hvað lengst og langvarandi eru verst í stakk búin til að taka við þessari sendingu. Þess vegna kallar Samband íslenskra sveitarfélaga eftir fjárframlagi frá ríkinu í þessu skyni. Hver er afstaða ráðherra til þess?