144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

stytting tímabils atvinnuleysisbóta.

[10:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur kærlega fyrir fyrirspurnina og gaman að sjá hana hér aftur á þingi.

Það er rétt að þetta er megintillagan um niðurskurð í félags- og húsnæðishluta velferðarráðuneytisins, að stytta atvinnuleysisbótatímabilið um hálft ár. Ástæðan fyrir því er, eins og þingmaðurinn fór í gegnum, hagræðingarkrafa. Þrátt fyrir þessa tillögu verðum við enn þá með lengsta bótatímabilið á öllum Norðurlöndunum en við verðum samt að færa okkur meira í áttina að því hvað þekkist annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég lagði líka áherslu á að verja það fjármagn sem fer í vinnumarkaðsaðgerðir og bæta aðeins í. Það hefur sýnt sig að þau úrræði sem við höfum verið að beita skila árangri. Þessi ákvörðun byggðist náttúrlega á þeim frábæru fréttum sem komu fram í máli þingmannsins að atvinnuástandið er að batna verulega. Við erum með hvað lægstu atvinnuleysistölur af öllum OECD-ríkjunum. Ég held að við séum þar í hóp með Noregi, Þýskalandi og Austurríki, ég kannast ekki við að þau hafi farið í gegnum nein áföll á síðustu árum.

Ég geri því ráð fyrir að við munum líka sjá almennt lægri atvinnuleysistölur. Við erum að fá mjög bjartar hagspár, eins og frá ASÍ í gær, og þær eru í takt við það sem Seðlabankinn hefur verið að spá. Málið er núna í höndum þingsins. Þingið mun fara yfir hagspár og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að fjárlögin endurspegli þær.

Ég hef átt þó nokkur samtöl við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa verið að vísa fólki sem fær fjárhagsaðstoð hjá þeim til Vinnumálastofnunar og við höfum séð að þeir einstaklingar hafa náð umtalsverðum árangri. Við munum leggja mjög mikla áherslu á það að sveitarfélögin nýti sér þá þjónustu sem Vinnumálastofnun býður upp á og alla þá reynslu sem hún er búin að byggja upp (Forseti hringir.) á undanförnum árum.