144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

stytting tímabils atvinnuleysisbóta.

[10:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði í svari mínu að í hagspám og atvinnuleysistölum sem við erum að fá núna fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði minna en er áætlað í fjárlagafrumvarpinu sem liggur (Gripið fram í.) fyrir þinginu. Það þýðir einfaldlega að þetta hefur ekki bara með þá að gera sem eru að detta út á bótatímabilinu heldur líka þá sem eiga rétt. Það er það sem fjárlaganefnd þarf að taka tillit til. Ég reikna fastlega með að hún muni gera það.

Ég vil líka ítreka það sem ég sagði í svari mínu að við erum að bæta fjármunum í vinnumarkaðsúrræði VIRK. Ég vil líka minna hv. þingmann á að þegar hún var formaður velferðarnefndar og setti lög um starfsendurhæfingarsjóðina var lögð mjög mikil áhersla á að ekki væri byggður upp varasjóður hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. Núna eru hins vegar um 2 milljarðar í varasjóði. Ég tel mjög eðlilegt í ljósi stöðu ríkissjóðs að við tæmum kannski þann sjóð fyrst áður en við setjum meiri pening þar inn.