144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

verndun friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum.

[10:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sumum fréttum er auðvelt að gleyma, jafnvel þótt þær séu mjög mikilvægar. Eitt af því sem við höfum kannski svolítið misst sjónar á upp á síðkastið eru opinberanir Edwards Snowdens, sem að mati þess sem hér stendur er ein mesta hetja samtímans fyrir að uppljóstra um það hvernig sé í pottinn búið með eftirlitsmál, sérstaklega háttvirtra Bandaríkjanna og Bretlands.

16. maí 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum. Þar ályktaði Alþingi að fela utanríkisráðherra að beita sér fyrir gerð sáttmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum sem feli í sér hvenær og á hvaða forsendum megi safna eða vinna úr stafrænum upplýsingum um einstaklinga.

Mig langaði að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra hvaða sýn hann hefði í þeim efnum og hvernig hann sæi sér fært að vinna að þessum mikilvægu markmiðum.