144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

verndun friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að 16. maí síðastliðinn var samþykkt sú þingsályktunartillaga sem þingmaðurinn vitnar til. Ég náði að afla mér nokkurra upplýsinga um málið af því að þingmaðurinn var svo vinsamlegur að benda mér á hvað hann ætlaði að spyrja um. Það er unnið að málinu nú þegar í ráðuneytinu. Á laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins er verið að undirbúa þessa ósk sem við munum fara með til Sameinuðu þjóðanna af því að við fylgjum að sjálfsögðu eftir því sem Alþingi hefur falið okkur að gera.

Hvaða sýn og hvort þetta nær fram að ganga innan Sameinuðu þjóðanna get ég í sjálfu sér ekki svarað á þessum grunni. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að við skýrum leikreglur og skýrum þá umgjörð sem gildir í okkar samfélagi. Ef við horfum á stóru myndina, samfélagið allt saman, þá þurfa að vera skýrar reglur og umgjörð um þá sem veita upplýsingar og einnig um meðferð upplýsinga, hvort eðlilegt sé að allar upplýsingar séu veittar óátalið o.s.frv. Þetta er umræða sem þarf að taka.

Þingsályktun um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum er mjög mikilvæg og við munum að sjálfsögðu fylgja henni eftir, en eins og ég sagði áðan er undirbúningur hafinn nú þegar.