144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

verndun friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum.

[10:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Mig langar að nefna að ég fór til Hollands nýlega og þar var hægt að kaupa lestarmiða og gera það nafnlaust. Mér var sagt af þeim sem höfðu búið þar í nokkur ár að þegar menn fóru að hafa kort sem hægt var að taka upp hver ætti kortið, hvert hann væri að fara o.s.frv., fannst hollensku samfélagi mjög mikilvægt að hægt væri að ferðast án þess að vera nokkurn tímann skráður með nafni eða kennitölu eða nokkurs konar einkenni. Ástæðan fyrir þessu er sú að í seinni heimsstyrjöldinni voru persónuupplýsingar notaðar til þess að fremja ein verstu grimmdarverk sem mannkynið þekkir.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ill öfl í heiminum geta komist aftur til valda og þá er mjög mikilvægt að innviðir samfélagsins séu ekki þannig að upplýsingar séu úti um allar trissur sem hægt er að misnota. Menn fundu gyðingana vegna þess að þeir voru skráðir, vegna skráningar trúarbragða. Við gerum þetta hér. Það er mikilvægt að við (Forseti hringir.) sjáum framtíðina fyrir okkur áður en hún á sér stað (Forseti hringir.) þannig að ég hvet hæstv. utanríkisráðherra áfram í þessum efnum.