144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[11:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þessa fyrirspurn. Ég svaraði henni skriflega varðandi ýmislegt sem sneri að kostnaði vegna gjaldþrotaskipta fyrir stuttu síðan. Það var einmitt mjög áhugavert að sjá sundurliðaðar þær ástæður sem umboðsmaður skuldara hafði fyrir að synja greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Þar af eru 54% þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda. Alveg eins og hv. þingmaður sagði hefði maður haldið að það væri neyðarúrræði að sækjast eftir því að fara í gegnum gjaldþrot, en miðað við hvernig afgreiðslan hefur verið virðist vera sem umboðsmaður skuldara, sem er náttúrlega sú stofnun sem hefur mesta reynslu í því að aðstoða fólk í skuldavanda, meti það svo að hægt sé að fara í önnur vægari úrræði og hefur náttúrlega lagaumgjörð til þess, eins og m.a. greiðsluaðlögunina. Við munum einfaldlega fara yfir þetta núna.

Það er líka mjög áhugavert að umboðsmaður skuldara birti nýlega nýja könnun þar sem hann hafði spurt fólk sem hefur fengið þjónustu hjá umboðsmanni skuldara um upplifun þess af þjónustunni. Mesta óánægjan með þjónustuna hjá umboðsmanni skuldara var ekki hjá þeim sem fengu þau úrræði sem umboðsmaður býður upp á, heldur hjá þeim sem fengu synjun um úrræði. Það var talað um að 30% hefðu fengið synjun, hefðu ekki fengið að fara í gegnum greiðsluaðlögun og væntanlega ekki heldur fengið aðstoð við greiðslu gjaldþrotaskipta, og verið sagt að á grundvelli laganna væri ekki hægt að aðstoða viðkomandi.

Í framhaldi af þessu er næsta skref að fara í gegnum lögin eins og þau voru sett og skoða hvort ástæða sé til þess að rýmka heimildir umboðsmanns skuldara til þess að aðstoða fólk.

Ég mun á eftir (Forseti hringir.) svara varðandi reglugerðirnar.