144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[11:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að vekja á því athygli við afgreiðslu þessa máls, þetta leiðréttingarfrumvarp á lögunum um leiðréttingu fasteignaveðlána, sem hefur komið í ljós að er meira lánahreinsun í þágu bankakerfisins en menn áttuðu sig á í fyrstu, að enn er ekki ljóst hvernig framvindu málsins mun reiða af, samanber það að ósamið er við bankana um verðlagningu á þeim uppkaupum lána sem þar eiga að eiga sér stað og Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, hefur ekki látið álit sitt í ljós enn þá á því hvort þarna kunni að vera um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða.

Ýmislegt kann að eiga eftir að koma í ljós og skýrast og ganga á í þessari framkvæmd. Þetta er einhver flóknasta pöntun á pítsu sem ég hef orðið vitni að.