144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:16]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum við 2. umr. nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum.

Við 1. umr. gerði ég í ræðu athugasemd við að hér væru allmikil viðurlög, þ.e. að Mannvirkjastofnun væri heimilt að beita dagsektum, allt að 500.000 kr. á dag, við brotum á lögum sem varða visthönnun vöru sem notar orku. Hér er verið að víkka út gildissvið laganna, úr vörum sem tengjast raftækjum og yfir í vörur sem tengjast orkunotkun. Ég held að refsiramminn sé allt of rúmur, það er hægt að sekta fyrir allt að 500.000 kr. á dag fyrir brot gegn lögum þessum.

Þetta eru í fyrsta lagi lög sem eiga tiltölulega lítið erindi til Íslands vegna þess að hér er orka til húshitunar fengin með hitaveitu, orka til þess að knýja raftæki er fengin með endurnýjanlegri raforku sem er hrein og veldur ekki útblæstri. Hjá Evrópusambandinu er verið að setja þessar reglur til að draga úr útblæstri koltvísýrings, svo að það getur verið mjög mikilvægt. Það getur líka sparað neytendum mikið að einangra húsin sín betur, það borgar sig. En hér á landi borgar það sig ekki í sama mæli vegna þess að við erum búin að fjárfesta í hitaveitu og við erum búin að fjárfesta í hreinni orku og virkjunum.

Ég sé ekki að þessi refsirammi sé í nokkru samræmi við það tjón sem getur leitt af því að merkingar á vörum séu ekki fullnægjandi eða eitthvað slíkt. Refsirammi upp að 500.000 kr. er allt of hár, ég legg til að hann verði lækkaður niður í 50.000 kr.

Ég spyr flutningsmann hvort nefndin hafi ekki tekið þetta til skoðunar.