144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig undrar ekki að trú hv. þingmanns á hið góða í manninum hafi aukist eftir að hafa kynnst framsóknarmönnum sem eru upp til hópa hjartahreint og vel innréttað fólk.

En af því að hann talaði um að þetta væri kranaþingmennska af verstu sort þá vil ég nú aðeins andmæla því vegna þess að kannski var sú breyting sem nefndin gerði á frumvarpinu sú veigamesta, þ.e. að fela þetta þeirri ríkisstofnun sem höndlar með sambærileg mál í stað þess að skilja málið eftir í annarri ríkisstofnun sem er vanbúin til að hafa eftirlitið, að einfalda líf þeirra sem sæta eftirlitinu ef við getum orðað það svo, það var það sem nefndin gerði. Því andmæli ég því að málið hafi verið tekið og því hafi verið kyngt hráu af hv. atvinnuveganefnd. Þvert á móti unnum við á því þær breytingar sem verða ríkinu til sparnaðar og eftirlitsþolendum til þæginda.

Ég deili ekki þeim áhyggjum manna af því að íslenskir embættismenn séu svo refsiglaðir eða peningagírugir fyrir hönd ríkissjóðs að hætta sé á að þessu hámarksákvæði verði nokkurn tíma beitt. Ég sé ekki ástæðu til að færa þá upphæð niður og bendi enn og aftur á það að hún byrjar á núlli.