144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Viðurlög verða alltaf að vera í samræmi við verknaðinn sem þau beinast að. Eins og þessi lög eru upp sett er þetta óhæfilegt, það held ég að sé niðurstaða þessarar umræðu. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson á hrós skilið fyrir að hafa vakið athygli þingsins og ýmissa nefnda á málinu.

Að því er varðar ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þarf hann ekki að undra að ég sé sammála þeim sem vilja draga úr skrifræði, ég hef alltaf verið það. Mín krítík á Evrópusambandið hefur alltaf verið að það sé of mikil skriffinnskustofnun. Það er þess vegna sem ég hef talið að það góða samband hafi mjög gott af því að það komi inn ferskur andblær frá litlu ríki eins og Íslandi sem hefur yfirleitt (Gripið fram í.) sýnt það að þegar Framsóknarflokkurinn a.m.k. er utan ríkisstjórnar berjast menn gegn skrifræði. Við erum flest á því að hafa þetta sem tærast.

Það má draga aðra ályktun af þessari umræðu því að þeir sem helst hafa varið þetta eru framsóknarmenn, einn tiltekinn framsóknarmaður sem er ekki lengur hér, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. En á móti kemur að það var líka framsóknarmaður sem benti á þetta og eins og ég hef sagt á hann þökk skilda fyrir það.

Núna liggur fyrir að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill að þetta mál verði skoðað milli 2. og 3. umr., og það sé skoðað rækilega hvort þarna séu menn ekki að seilast fullhátt. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel þess vegna að eftir umræðuna sem við höfum átt hérna liggi alveg ljóst fyrir að allir þeir sem hafa tekið þátt í henni, hugsanlega fyrir utan einn, eru þess fúsir að skoða hvort ekki sé rétt að breyta þessu.

Ég tek sömuleiðis algjörlega undir þá röksemd sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason flutti áðan að það eru engin rök fyrir þessu tiltekna ákvæði að það kunni að vera eitthvað svipað í öðrum lögum. Frekar ættum við að skoða ef svo er, sem virðist vera raunin, að menn eru sammála um að þetta séu fullströng viðurlög hvort það gefi okkur ekki tilefni til þess að fara í önnur lög (Forseti hringir.) og skoða hvort þeim eigi að breyta með sama hætti.