144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um eða gaf í skyn að heppilegt væri fyrir það skrifræðisbákn sem Evrópusambandið er að fá þangað þjóð eins og Íslendinga sem vill breyta slíku. (Gripið fram í.)Þetta er ekki í takt við umræðuna hérna vegna þess að fram kom að við værum að ganga lengra en Evrópusambandið hvað þetta snertir.

Hins vegar vil ég segja að ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að Evrópusambandið sé að verða of mikið skrifræðisbákn. Við horfum upp á það í samanburði Evrópusambandsins, þar sem er samanburður við önnur þjóðríki, að skrifræði er að aukast mikið í Evrópusambandinu. Menn eru farnir að hafa af því miklar áhyggjur og það er farið að vinna gegn fyrirtækjarekstri og öðru þess háttar. Ég hef lesið greinar í virtum erlendum ritum um að oft og tíðum sé það ekki einungis vinnuafl eða annað slíkt sem geri það að verkum að stórfyrirtæki flytja starfsemi sína frá Evrópu heldur sé það skrifræðið, skrifræðisbáknið og eftirlitsbáknið sé orðið slíkt að það sé farið að vinna gegn atvinnulífinu í mörgum þessara ríkja.

Ég vil segja það að ég gat ekki fundið annað en að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson tæki mjög vel í að málið yrði skoðað milli 2. og 3. umr. Ég er ekki viss um, miðað við umræðuna hér, að nefndin hafi skoðað þetta mál svo mikið. Ég vil hrósa hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, líkt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði, fyrir að koma auga á þetta. Ég held að samstaða sé um það, alla vega meðal framsóknarmanna, ég hef ekki skynjað annað, að vinna almennt gegn óþarfaskrifræði. Ég hygg að það hafi engin breyting orðið þar á, enda á það að vera verkefni okkar þingmanna allra, óháð flokkslínum, að vinna gegn slíku. Það er engin ástæða til að efla og auka skrifræði í landinu að óþörfu.