144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alltaf fús til þess að fallast á það ef röksemdir mínar eru veikar og bent er á það með sterkari rökum. Hv. þingmaður bendir á að kannski sé fulllangt gengið hjá mér að halda því fram að koma Íslands í Evrópusambandið mundi færa þar ferskan andblæ minna skrifræðis. Hv. þingmaður bendir á það sem auðvitað er rétt og ég átti að sjá strax, að í þessu tiltekna máli er skrifræðið á Íslandi miklu meira en í Evrópusambandinu. En það er út af fyrir sig mikilvægt að það skuli vera þessi tiltekni hv. þingmaður sem bendir á það.

Vissulega gagnrýnir hann líka ESB fyrir skriffinnsku en hann hefur þó dug og heiðarleika og einurð til þess að koma hingað og benda á að þrátt fyrir það hvernig Evrópusambandið er statt í þeim málum er Ísland verr statt í þessu tilviki a.m.k., líka í öðrum tilvikum. Mér hefur til dæmis alltaf, fyrst við erum farin að tala um þetta, þótt alveg stórundarlegt hversu niðurnjörvuð löggjöf og regluverk eru um landbúnað á Íslandi. Þegar ég fer til að mynda til Evrópu sér maður að þar er hægt á einstökum búum að vera með sérstaka framleiðslu á ostum, víni og öðru sem þeir — og ég ætla ekki að segja hverjir það eru — sem hafa ráðið fyrir landbúnaði á Íslandi hafa hins vegar fjötrað í slíkar reglur að tekur öllu fram sem Evrópusambandið hefur nokkru sinni látið sér koma til hugar.

Frá því að því laust niður í höfuð mér, alveg eins og þegar Sál var á leiðinni til Damaskus, allt sá ég í öðru ljósi. Þetta hlýtur að vera rétt ef það er hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hinn harði gagnrýnandi Evrópusambandsins, sem kemur hingað og bendir á að líkast til sé staðan þannig eftir allt saman að Evrópusambandið sé þokkalegra en Ísland þegar kemur að regluverki og skrifræði. Það er gaman að heyra það úr munni hans.