144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:22]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis, en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata í nefndinni. Málið var áður flutt á 143. löggjafarþingi og er þetta frumvarp að meginstefnu samhljóða því frumvarpi en hefur verið yfirfarið af forsætisnefnd og endurskoðað í ljósi þeirra athugasemda sem borist höfðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir 1. umr. þess.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið frá fyrra frumvarpi lúta í fyrsta lagi að heiti þess. Lagt er til að það verði frumvarp til laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, í stað frumvarps til laga um ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðun. Í því felst ekki efnisbreyting þar sem með orðinu ríkisendurskoðun með litlum staf var vísað til þeirra athafna að endurskoða ríkisreikninga. Þykir breytt heiti frumvarpsins skýrara og ná þessari merkingu betur.

Í öðru lagi er sú breyting lögð til í 4. gr. frumvarpsins að ríkisendurskoðandi tilnefni óháðan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem endurskoði reikninga Alþingis. Samræmist það betur sjálfstæði ríkisendurskoðanda gagnvart Alþingi og því fyrirkomulagi að forsætisnefnd tilnefnir endurskoðanda til þess að endurskoða reikninga Ríkisendurskoðunar.

Í þriðja lagi eru ákvæði 16. gr. um skýrslugerð og upplýsingagjöf ríkisendurskoðanda gerð skýrari að því er varðar hvernig ríkisendurskoðandi gerir grein fyrir niðurstöðum sínum við endurskoðun og eftirlit. Er í því sambandi greint á milli skýrslna, greinargerða og endurskoðunarbréfa.

Í fjórða lagi hefur 21. gr. frumvarpsins verið breytt þannig að hún kveði skýrar á um gildissvið laga um endurskoðendur gagnvart þeim starfsmönnum Ríkisendurskoðunar sem annast endurskoðun ársreikninga, sjóða og ríkisfyrirtækja þar sem ríkið á helmingshlut eða meira og lög áskilja að endurskoðun sé gerð af endurskoðanda sem fellur undir lög um endurskoðendur.

Loks er í fimmta lagi lagt til að frumvarpið öðlist gildi 1. júlí á næsta ári.

Frumvarpið byggist á því að Alþingi fari með fjárstjórnarvaldið, kjósi einstakling til þess að stýra Ríkisendurskoðun, annist endurskoðun og hafi eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Ríkisendurskoðun er því skrifstofa ríkisendurskoðanda og að þessu leyti verður staða ríkisendurskoðanda ákveðin með sama hætti og umboðsmanns Alþingis. Ríkisendurskoðandi verður þannig trúnaðarmaður Alþingis sem njóti trausts þess í störfum sínum og um leið sjálfstæðis.

Í I. kafla frumvarpsins kemur fram sú meginbreyting að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi í stað þess að vera ráðinn af forsætisnefnd. Með þessu er sjálfstæði hans undirstrikað. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi til sex ára í senn og að einungis verði hægt að endurkjósa hann einu sinni til jafn langs tíma. Þá eru ákvæði um hvernig skuli standa að kosningu ríkisendurskoðanda forfallist hann eða ef víkja á honum úr starfi, en þá er lagt til að 2/3 hlutar þingmanna þurfi að samþykkja slíkt. Enn fremur er tekin upp heimild til þess að setja annan mann til þess að fara með einstök mál reynist kjörinn ríkisendurskoðandi vanhæfur í máli.

Í II. kafla frumvarpsins er gerð grein fyrir starfssviði ríkisendurskoðanda og til hvaða aðila endurskoðun og eftirlit hans tekur. Efnislega er ekki um breytingu að ræða frá gildandi lögum, en ákvæðin eru gerð skýrari til að mynda um fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun.

Helstu nýmæli kaflans lúta að því að í stað þess að vísa til góðrar endurskoðunarvenju við framkvæmd fjárhagsendurskoðunar er gert ráð fyrir því að um endurskoðunina verði litið til endurskoðunarstaðla og verklagsreglna sem gilda um endurskoðun hjá opinberum aðilum.

Ákvæði IV. kafla um meðferð mála hjá Ríkisendurskoðun eru nýmæli. Er þar kveðið á um þagnarskyldu og sérstakt hæfi ríkisendurskoðanda, starfsmanna Ríkisendurskoðunar og annarra sem starfa í þágu stofnunarinnar. Jafnframt er kveðið á um rétt til umsagnar um drög að skýrslum og greinargerðum sem eiga að tryggja betur réttarstöðu þeirra sem falla undir eftirlit ríkisendurskoðanda.

Loks er fjallað um aðgang almennings að upplýsingum hjá Ríkisendurskoðun. Í frumvarpinu er lagt til að upplýsingaréttur almennings verði rýmkaður þegar um er að ræða gögn sem til verða í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila.

Um meðferð skýrslubeiðna til ríkisendurskoðanda og um upplýsingagjöf hans til Alþingis er fjallað í V. kafla frumvarpsins. Gildandi lög og ákvæði frumvarpsins miða við að ríkisendurskoðandi sé sjálfstæður í störfum sínum og ákveði sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu. Er því lagt til að forsætisnefnd geti ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingflokka eða þingnefnda farið fram á, í stað þess að krefjast þess, að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um einstök mál er falla undir starfssvið hans.

Helstu nýmæli í V. kafla frumvarpsins eru þau að gert er ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi greini forsætisnefnd frá umfangi beiðni og áætluðum skýrsluskilum. Þannig skal ríkisendurskoðandi upplýsa forsætisnefnd ef í ljós kemur að umfang athugunar reynist talsvert meira en áætlað var eða ef ekki er unnt að ljúka skýrslu á áætluðum tíma og tillögum þar að lútandi.

Í VI. kafla frumvarpsins eru ýmis ákvæði sem flest eru nýmæli. Meðal annars er lagt til að forsætisnefnd ákveði starfskjör ríkisendurskoðanda til samræmis við laun hæstaréttardómara. Heimilt verði að ráða staðgengil ríkisendurskoðanda í fjarveru hans. Þá er ákvæði um heimild stofnunarinnar til aðildar að alþjóðasamtökum ríkisendurskoðana og um heimild til þess að tilnefna Ríkisendurskoðun við endurskoðun þeirra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi verði kosinn í fyrsta sinn samkvæmt 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins þegar núverandi ríkisendurskoðandi lætur af störfum, en núverandi ráðning gerir ráð fyrir því að hann starfi til 1. maí 2018.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að greina frá meginefni frumvarpsins og helstu nýmælum þess. Ég legg til að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.