144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég talaði í þessu máli þegar það var lagt fram í vor og ætla svo sem ekki að endurtaka þá ræðu hér. Þar kom ég inn á það mál sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir talar hér um, þ.e. það skilyrði að forstöðumaður Ríkisendurskoðunar eða æðsti stjórnandi þar sé löggiltur endurskoðandi. Ég geri athugasemdir við það og eins og kom fram hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur er þessi krafa ekki gerð annars staðar. Ég tel að við ættum ekki heldur að gera hana hér.

Ég nefndi það í ræðu minni í vor sem dæmi að þá voru 383 löggiltir endurskoðendur hér á landi, ég hef svo sem ekki náð í tölurnar aftur enda held ég að það skipti ekki meginmáli, en 75% þeirra voru karlar. Þó að ég taki ekki annað dæmi en þetta þá er það mjög umhugsunarvert að þrengja hópinn þannig að konur hafi ekki sömu tækifæri og karlarnir til að sækja um þetta embætti. Einnig tel ég rétt að nefna að Ríkisendurskoðun fæst sífellt í meiri mæli við það sem kallað er stjórnsýsluendurskoðun. Það er ekki bara fjárhagsendurskoðun heldur líka stjórnsýsluendurskoðun. Fólk er menntað í stjórnsýslufræðum. Af hverju skyldum við ekki huga að því líka að fólk með þá menntun gæti verið forstöðumenn fyrir þessari stofnun Alþingis?

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að fimm umsagnir bárust um það, að mig minnir, þegar það var lagt fram í vor. Þessar fimm umsagnir eru í skjalasafni þingsins. Þær eru nú flestar frá endurskoðendum, Félagi endurskoðenda eða endurskoðendaráði, þannig að þær eru þá væntanlega litaðar af því hvaðan þær koma. Þar voru líka lagðar til einhverjar breytingar á sérstökum greinum. Ég átta mig ekki alveg á að hve miklu leyti tekið hefur verið tillit til þess, en það verður væntanlega farið yfir það í nefndinni.

Ég vil sem sagt fyrst og síðast gera athugasemd við kröfuna um menntun forstöðumanns Ríkisendurskoðunar og segi að það er alveg hægt að koma málum þannig fyrir með lagasetningu eða á annan hátt að forstöðumaður geti skrifað upp á ríkisreikning. Það getur verið yfirendurskoðandi í stofnuninni sem getur skrifað undir reikninginn sem endurskoðandi og síðan forstöðumaðurinn sem forstöðumaður en ekki sem endurskoðandi. Það getur ekki verið ástæða fyrir því að gera þessa kröfu. Ef það er yfirendurskoðandi hjá stofnuninni getur hann séð um lokaáritun á reikninginn og þá sé ég ekki rökin fyrir því að yfirmaðurinn þurfi að vera löggiltur endurskoðandi. Ég tel að það þurfi að fara mjög gaumgæfilega ofan í það atriði.