144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri í sjálfu sér ekki mikið úr þeirri röksemd að krafan þrengi hópinn. Hins vegar tek ég mark á því ef hv. þingmaður segir að svo vilji til að með þeim hópi sem þá verði til, með þeim takmörkunum er varða menntunina og ég hef lýst yfir fylgi við, sneyðist kannski um möguleika kvenna. Þá er sjálfsagt að skoða það. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, kannski vegna þess að ég kem úr fjölskyldu þar sem eru fjölmargir endurskoðendur og þar eru nú nokkrar konur á bekk, að sú stétt væri þannig samansett að í henni væru fyrst og fremst karlar.

Það er sjálfsagt að skoða alla hluti, en ég hef almennt talið mikilvægt, sérstaklega í stofnun af þessu tagi sem fer með endurskoðun, að sá sem standi þar með stýrið í höndum sér hafi úrvalsmenntun á því tiltekna sviði sem er endurskoðun. Kannski helgast það af því þegar við berum saman okkar eigin endurskoðun við þær sem eru í öðrum löndum þá hefur okkar stofnun fram undir það síðasta verið mjög lítil í samanburði við þær stofnanir. Það er kannski þess vegna sem í mínum hug í gegnum árin hefur orðið til sú afstaða að mér þykir nokkuð til um það og þætti gott að sá sem þarna trónir efstur hefði þessa tilteknu menntun. Þetta er skoðun sem ég hef haft ákaflega lengi og hefur áður komið fram í sölum Alþingis. Ég er hins vegar reiðubúinn til að skoða allt andspænis mjög sterkum rökum.