144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:50]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna sem hefur verið málefnaleg og eðlileg að mínu mati. Það er ekkert óeðlilegt að umræða sé hafin um það með hvaða hætti eigi að gera kröfur um hæfni þeirra sem skipa embætti ríkisendurskoðanda hverju sinni. Það er alveg ljóst mál að við erum með þessu frumvarpi að leggja til að viðhaldið sé því fyrirkomulagi sem hefur verið; við erum ekki að leggja til breytingar á því. Það hefur út af fyrir sig reynst ágætlega, að mínu mati, og í sjálfu sér eru það ákveðin rök.

Hins vegar er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort nú sé tilefni til þess að gera breytingar á hæfniskröfunum til ríkisendurskoðanda. Það er alveg rétt sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir sagði hér áðan, að í fyrstu hugmyndum sem lagðar voru fram, ekki reyndar í frumvarpsformi, af nefndinni sem undirbjó þetta mál var lagt til að það yrðu ekki gerðar hæfniskröfur sem eru hins vegar gerðar í þessu frumvarpi og eru í núgildandi lögum. Nú er spurt eftir rökum fyrir því að komast að þeirri niðurstöðu að gera ekki breytingar á því sem er í gildandi lögum. Að mínu mati eru rökin meðal annars þau sem við sjáum einfaldlega þegar við skoðum í fyrsta lagi 3. gr. frumvarpsins um hlutverk ríkisendurskoðanda og um endurskoðun ríkisreikninga. Eins og fram kemur er það hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins og stofnana þess o.s.frv. Það er augljóst mál að burðarásinn í verkefni Ríkisendurskoðunar er að fara yfir fjárreiður ríkisins og stofnana ríkisins og þar með auðvitað að vinna þau verk sem lúta að starfssviði endurskoðenda.

Það er alveg rétt að í ýmsum öðrum löndum er ekki áskilnaður um þetta, þar á meðal í Danmörku. Þó er það t.d. svo nú, sem er athyglisvert út af fyrir sig, að núverandi ríkisendurskoðandi Dana er löggiltur endurskoðandi. Niðurstaða þeirra er að það sé skynsamlegur og góður menntunarlegur bakgrunnur að ríkisendurskoðandi sé einstaklingur sem hafi þá löggiltu þekkingu á endurskoðun ríkisreikninga.

Við getum velt því dálítið fyrir okkur þegar við ræðum þessi mál hvort það sé eðlilegt eða heppilegt að sá einstaklingur sem ber ábyrgð á endurskoðun og áritun reikninga ríkisins og stofnana þess hafi í raun og veru ekki slíka sérþekkingu til að bera jafnvel þó að undirmenn sem starfa í hans umboði hafi hana. Það getur auðvitað verið ákveðið mat í því fólgið, ég skal viðurkenna það, en það er mat okkar sem stöndum að þessu máli að það sé eðlileg krafa að þær hæfniskröfur séu settar fram í frumvarpinu og í lögunum að viðkomandi einstaklingur hafi til að bera þá reynslu og þekkingu sem löggilding endurskoðanda felur í sér.

Það er alveg rétt að þessi mál voru mikið rædd af okkur sem undirbjuggum að lokum frumvarpið og við tókum um það ákvörðun að leggja til í frumvarpinu að þetta skyldi vera gert með þessum hætti. Það var auðvitað ekki gert að óyfirveguðu ráði. Við ræddum þetta vegna þess að hin hugmyndin var líka uppi og þess vegna þurftum við að ræða okkur í gegnum þetta og komast að einhverri efnislegri niðurstöðu.

Að öðru leyti vil ég vísa í greinargerðina um 2. gr., sem fylgir þessu frumvarpi, þar sem meðal annars er fjallað um þetta álitaefni. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í gildandi lögum er sú almenna hæfiskrafa gerð að ríkisendurskoðandi hafi löggildingu sem endurskoðandi. Að baki þeirri kröfu býr sú röksemd að ríkisendurskoðandi, sem ber m.a. ábyrgð á endurskoðun ríkisreiknings og ársreikninga stofnana ríkisins, skuli hafa þá þekkingu á reikningsskilum og gerð ársreikninga sem nauðsynleg er til þess að geta staðfest réttmæti þeirra og trúverðugleika með áritun sinni. Í ljósi síðastgreindra sjónarmiða er í greininni lagt til að ríkisendurskoðandi hafi löggildingu sem endurskoðandi.“

Með þessum áskilnaði má segja að verið sé að þrengja hópinn sem getur sótt um. Þá er því til að svara að í svo þýðingarmiklu embætti þarf augljóslega að gera tilteknar hæfniskröfur og þær munu í sjálfu sér verða til þess að þrengja þann hóp sem getur sótt um. Ég hef ekki áhyggjur af því að ekki sé nægur hópur hæfs fólks sem hefur hlotið löggildingu í endurskoðun og mundi sækja um slíkt starf. Í þeim hópi gætu bæði verið konur og karlar. Sem betur fer fer konum fjölgandi í þessum hópi.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir spurði um þær breytingar sem frumvarpið fæli í sér frá upphaflegu frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi og var þá vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem leitaði síðan umsagna. Umsagnirnar kölluðu á tilteknar breytingar. Ég fór yfir þær í ræðu minni og ætla ekki að rekja þær hverja fyrir sig að nýju. Þó vil ég í þessu sambandi nefna sérstaklega 21. gr. frumvarpsins þar sem um er að ræða allnokkrar breytingar sem eru efnislegar. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Lög um endurskoðendur, nr. 79/2008, taka ekki til ríkisendurskoðanda eða Ríkisendurskoðunar. Ákvæði laganna taka til þeirra starfsmanna Ríkisendurskoðunar sem annast endurskoðun ársreikninga, sjóða og ríkisfyrirtækja þar sem ríkið á helmingshlut eða meira og lög áskilja að endurskoðunin sé framkvæmd af endurskoðanda sem fellur undir lög um endurskoðendur.“

Þetta var gert að gefnu tilefni vegna ábendinga og athugasemda sem komu frá endurskoðendum. Hins vegar er nauðsynlegt að árétta það og það var niðurstaða okkar eftir að hafa farið yfir þessar umsagnir að endurskoðun á reikningum ríkisins og stofnana ríkisins lyti að sumu leyti öðrum lögmálum en endurskoðun á reikningum fyrirtækja. Það er mjög mikilvægt að það sé lagt til grundvallar. Ákveðin viðmið eru í gildi varðandi endurskoðun á reikningum ríkisins og stofnana þess, sem eru sjálfstæðar reglur og sjálfstæð viðmið, en endurskoðendur sjálfir hafa síðan önnur viðmið sem hafa bæði verið sótt til Evrópu og til Bandaríkjanna eins og kunnugt er og margt af því er reyndar þegar komið í lög.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að því að það væri algengt að beint væri til Ríkisendurskoðunar af hálfu þingmanna, hóps þingmanna, þingnefnda eða í gegnum forsætisnefnd beiðnum um tilteknar athuganir og spurði hann sérstaklega um athuganir af tilteknum toga, svo sem sameiningu stofnana, flutning stofnana o.fl. Því er til að svara að þetta frumvarp girðir alls ekki fyrir það að slíkar beiðnir geti komið fram. Ég man ekki nákvæmlega, a.m.k. ekki þannig að ég þori að standa á því að slíkt hafi átt sér stað, að slíkt hafi verið gert að beiðni þingmanna. Hins vegar man ég vel að Ríkisendurskoðun skoðaði ýmis svona dæmi, m.a. þegar ákveðið var að sameina ráðuneyti í það sem nú heitir innanríkisráðuneyti. Sú sameining kom reyndar vel út úr mati Ríkisendurskoðunar. Sömuleiðis tók Ríkisendurskoðun til endurathugunar sameiningu stofnana í stofnun sem nú heitir Þjóðskrá Íslands, sem ég man eftir. Þar kom reyndar fram að kostnaður hefði aukist mjög við þá sameiningu, sem er áhugaverð ábending.

Sjálfur deili ég þeirri skoðun með hv. þingmönnum að það sé mjög til bóta að einmitt núna þegar mikið er rætt um sameiningu stofnana sé full ástæða til þess fyrir Ríkisendurskoðun að leggja almennt mat á það til þess að við getum haft það sem viðmið í þeirri umræðu sem fram fer.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að bæta við. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég veit að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verður farið vandlegum höndum um þetta mál og meðal annars farið yfir þau álitamál sem hv. þingmenn hafa vakið máls á.