144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir þessari umræðu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í rekstri Ríkisútvarpsins þegar fregnir berast af því að Ríkisútvarpið eigi ekki fyrir skuldum sem eru á gjalddaga. Það er brýnt að ræða þetta mál í þingsölum, ekki síst vegna þess að það hefur verið dálítið djúpt á skynsamlegum og rökréttum viðbrögðum af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli.

Það er rétt að minna á það í upphafi að það hefur verið þverpólitísk samstaða um almannaþjónustuhluverk Ríkisútvarpsins frá upphafi og hún hefur dugað þvert á alla flokka allt frá 1930. Það urðu umtalsverðar breytingar árið 2007 þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag, að hluta til til góðs vegna þess að þá voru þessar almannaþjónustuskyldur skilgreindar í sérstökum þjónustusamningi sem enn er í gildi og afmarkar þar af leiðandi verkefni Ríkisútvarpsins. Á hinn kantinn urðu breytingarnar til ills með því að í samræmi við hina hugmyndafræðilegu nauðhyggju núverandi og þáverandi stjórnarflokka var breytt um rekstrarform og Ríkisútvarpinu búinn til stakkur í opinberu hlutafélagi sem ekki hentar á nokkurn hátt eðli þess rekstrar sem þar er um að ræða og virðist fyrst og fremst hafa þjónað þeim pólitísku markmiðum þessara tveggja stjórnmálaflokka að veikja almannaþjónustuna.

Það var sérstakt undrunarefni að lífeyrisskuldbindingar voru látnar fylgja í RÚV ohf. Hæstv. fjármálaráðherra sem greiddi þessum gjörningi atkvæði sitt á Alþingi sagði nýverið að það væri erfitt að setja sig í spor þeirra manna sem hefðu ákveðið þetta — þó að hann væri einn þeirra og virtist ekki reka minni til þess hvers vegna í ósköpunum tekin hefði verið sú ákvörðun að láta lífeyrisskuldbindingar fylgja í þessu tilviki, það væri svo sem alveg eins hægt að láta lífeyrisskuldbindingar fylgja rekstri menntamálaráðuneytisins eða fjármálaráðuneytisins og jafn órökrétt. Þessar skuldbindingar eru nú að sliga rekstur Ríkisútvarpsins, hafa ekkert með dagskrána að gera og ekki þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að sinna. Útvarpsgjaldið var skert á niðurskurðartímanum versta. Það er áfram skert nú þegar jafnvægi hefur náðst í ríkisfjármálum og boðað að það verði lækkað á næstu árum. Á sama tíma hafa kostunartekjur og auglýsingatekjur minnkað vegna tillits til samkeppnissjónarmiða fyrst og fremst þar sem reynt hefur verið að gera stofnunina ekki of djarftæka á markaði. Lausnin í þessu máli hlýtur að vera að óbreytt útvarpsgjaldið, eins og það stendur nú, renni óskert til Ríkisútvarpsins, að við mörkum þá stefnu sem gildi til nokkurra ára og gerum þverpólitískt samkomulag um að þannig verði það, allir flokkar á Alþingi, þannig að stofnunin geti gert áætlanir fram í tímann.

Það er líka fullkomlega óeðlilegt að hafa lífeyrisskuldbindingarnar áfram í efnahagsreikningi þessarar stofnunar. Fráleitast af öllu væri að selja útvarpshúsið til að borga þessar lífeyrisskuldbindingar. Þá má eins selja Arnarhvál til að borga lífeyrisskuldbindingar fjármálaráðuneytisins eða húsnæði menntamálaráðuneytisins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum þess. Það dettur engum í hug. Ef húsið verður selt, eða hluti þess, eða lóð undir nýbyggingar, er að sjálfsögðu rétt að þeir peningar renni til dagskrárinnar og styrki stofnunina sjálfa til frekari uppbyggingar. Ríkið á að yfirtaka þessar lífeyrisskuldbindingar aftur.

Ég vil síðan segja að ég hef sérstakar áhyggjur af yfirlýsingum hæstv. ráðherra og þingmanna stjórnarmeirihlutans um þetta mál. Ég sé alveg hvaða andblær gustar í átt til Ríkisútvarpsins frá stjórnarflokkunum. Maður sér alveg hvernig talað er og reynt að grafa undan almannaþjónustunni í þessu tilviki sem öðrum. Það er þessi ófrægingarherferð sem er í gangi gagnvart opinberri þjónustu sem gætir mjög í umræðu stjórnarmeirihlutans gagnvart Ríkisútvarpinu og við sjáum í þessu máli sem og tilviki Landspítalans og mörgum öðrum sem upp hafa komið á undanförnum vikum og mánuðum að viðvarandi rekstrarvandi ríkisstofnana er glæpavæddur í orðræðu stjórnarmeirihlutans. Einstökum stjórnendum er kennt um langvarandi rekstrarvanda og ekkert horft til þess að rekstrarvandinn er til kominn vegna þess að menn hafa uppfyllt skyldur sem þeim eru lagðar í lögum. Fjárveitingar hafa ekki verið nægar til að standa undir þeim lagaskyldum.

Ég beini því eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra: Er ekki einboðið að við stöndum áfram við þá þverpólitísku samstöðu sem var um almannaþjónustuhlutverk RÚV og var mörkuð í þjónustusamningi árið (Forseti hringir.) 2007? Er ekki sjálfsagt að við gerum hér þverpólitískt samkomulag um að útvarpsgjaldið renni óskert og óbreytt til (Forseti hringir.) stofnunarinnar til næstu ára og að eftirlaunaskuldbindingarnar verði teknar út úr efnahagsreikningi stofnunarinnar?