144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:12]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Þegar rætt er um vanda Ríkisútvarpsins beinast sjónir okkar og hugur fyrst og fremst að fjárhagsvanda þess en ekki öðru sem er að mörgu leyti skiljanlegt. Ég vil þó meina að vandi Ríkisútvarpsins sé tvíþættur, eins og hér hefur komið fram, annars vegar fjárhagslegur og hins vegar vandi sem stafar af viðhorfi stjórnvalda til stofnunarinnar og starfsfólks hennar.

Viðhorf stjórnvalda endurspeglast meðal annars í því hvernig ráðherrar og þingmenn tala stofnunina niður og gera starfsemi hennar tortryggilega að flestu leyti. Það eru þekkt dæmi um það, m.a. á síðasta kjörtímabili þegar núverandi stjórnarliði í þingsal sagði að það ætti að fækka vinstri sinnuðum fréttamönnum á fréttastofu RÚV. Nær í tíma eru ummæli núverandi formanns fjárlaganefndar þess efnis að það verði að skera niður hjá stofnuninni vegna fréttaflutnings hennar og meintrar afstöðu fréttamanna til einstakra mála. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sömuleiðis neitað Ríkisútvarpinu um fréttaviðtöl og sniðgengið stofnunina með ýmsum hætti í þeim tilgangi að draga úr vægi hennar og gera starfsemina tortryggilega.

RÚV hefur gengið í gegnum gríðarlegar þrengingar frá hruni eins og allt annað í samfélaginu, eins og hæstv. menntamálaráðherra nefndi áðan. Framlög hafa dregist saman og tekjur hafa minnkað. Starfsemin hefur sömuleiðis gjörbreyst. Við munum eftir svæðisstöðvunum, starfsmannahaldinu um allt land o.s.frv., þetta hefur gjörbreyst og er allt annað en áður var.

Þegar þetta tvennt fer saman, neikvætt viðhorf stjórnvalda til Ríkisútvarpsins og fjárhagslegar þrengingar, að ég tali ekki um viðhorf til opinberra starfsmanna og opinberra stofnana, er ekki von á góðu. Í þessu fjárhagslega skjóli og skjóli þessa viðhorfs ætlar stjórnarmeirihlutinn og þinglið hægri flokkanna að ná fram pólitískum vilja sínum og knésetja Ríkisútvarpið.