144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég fékk í fyrradag kynningu hjá nýráðnum útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins á stöðu RÚV. Þar virðist sem fjárhagsvandamáli hafi lengi verið velt inn í framtíðina í skjóli leyndar sem upplýsingalög ná ekki yfir vegna þess að lög um leynd yfir skuldabréfi eru sterkari. Þetta þarf virkilega að athuga ef við getum ekki fengið samkvæmt upplýsingalögum upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins vegna þess að það er eitthvert skuldabréf sem leynd á að hvíla yfir.

Varðandi kynningu útvarpsstjóra kemur tvennt upp, annars vegar varðandi eignastöðuna og hins vegar skuldir. Það er gamalt skuldabréf, það eru færðir lífeyrisskuldbindingar sem skuldabréf inn í upprunalega RÚV þegar það var gert að opinberu ríkisfyrirtæki. Þetta er mjög einkennilegt fyrirbæri og setur allan rekstur RÚV í uppnám ef það kemur verðbólguskot, eða hvað? Það þarf virkilega að skoða þetta.

Þetta gerir ekki útslagið hjá þeim, þeir eru að fara að selja eignir o.s.frv., horfa til þess, og geta þar af leiðandi farið í uppbyggingu sem er nauðsynleg, virðist vera, en þetta setur alla eignastöðu Ríkisútvarpsins í uppnám. Það getur gert það, skulum við segja.

Svo er það varðandi reksturinn. Þar er tekjuhliðin. Það er búið að takmarka tekjur af auglýsingum og mér finnst að RÚV eigi ekki að vera í samkeppni á auglýsingamarkaði og ætti algjörlega að fjarlægja það. Útvarpsgjaldið ætti hins vegar að renna óskipt til RÚV og það þarf að tryggja að RÚV fái tekjur til að sinna sínu lögbundna hlutverki sem er ekki í dag samkvæmt útvarpsstjóra. Tekjur Ríkisútvarpsins, sem nota bene eru teknar í gegnum útvarpsgjald, sem Alþingi heldur svo eftir, 550 millj. kr., fær Ríkisútvarpið ekki.

Það sem er kallað eftir hjá Ríkisútvarpinu, ef þar á að vera óbreytt þjónusta, er að útvarpsgjaldið sé óbreytt og renni óskipt til Ríkisútvarpsins til að það geti sinnt sínu lögbundna hlutverki.

Í síðari ræðu mun ég koma inn á alvarlegan skort á hlutleysi RÚV (Forseti hringir.) til að sinna sínu lögbundna hlutverki, m.a. eftirliti með stjórnvöldum og gagnrýninni umræðu um stjórnvöld.