144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fleiri vil ég þakka fyrir að þetta mál sé komið hér inn aftur. Þetta er ein mikilvægasta stofnunin sem við eigum í þessu samfélagi. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um lýðræðishlutverk hennar, að viðhafa óháða fréttaumfjöllun og miðla íslenskri og fjölbreytilegri menningu.

Margir telja að tilveruréttur ríkisfjölmiðla í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við þegar framboð misáreiðanlegra upplýsinga á netinu eykst sífellt.

Skilin milli hlutlægra upplýsinga og frétta verða óljósari þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara. Aðförin hófst af hálfu Sjálfstæðisflokksins síðasta sumar þegar sú pólitíska ákvörðun var tekin að skipa stjórn RÚV pólitískt. Það er í rauninni gegn því sem fram hafði komið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hefur líka kostnaðarauka í för með sér þegar allra leiða er leitað til að spara.

Í þeirri miklu skýrslu var samþjöppun valds og spillingar dregin fram í dagsljósið og rakið að hið pólitíska vald og einræði er hluti af því að kerfið brást. Eða hverjum ætlum við að sjá um útsendingar til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags? RÚV býr við þá kvöð. Við erum búin að reka okkur á þetta með Símann meðal annars. Ætlum við okkur að gera það aftur? Við þurfum þess ekki þegar vá er til dæmis fyrir höndum.

Hv. þingmaður Framsóknarflokksins hefur sagt að Ríkisútvarpið geti ekki verið lengur allt fyrir alla eða eigi að gera öllum til hæfis allan sólarhringinn, það gangi ekki upp. Honum finnst allt í lagi að gera allt fyrir alla með skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar, þannig að það skiptir máli um hvað er talað þegar við tölum um fjármuni.

Það hefur komið fram að vandinn er mikill, það dregur enginn úr því. Hann er hægt að leysa og það skiptir nefnilega máli hvaða pólitík verður höfð að leiðarljósi þegar það er gert. Útvarpsgjaldið þarf að vera óbreytt, það var búið að leggja það til frá og með næstu áramótum að svo eigi það að vera.

Hvaða verkefni telur ráðherrann að megi leggja af sem hafa einhvern þunga í dagskrárgerð RÚV? Er hann tilbúinn að breyta tekjumöguleikum, t.d. með (Forseti hringir.) breyttu auglýsingaformi? Eða hvaða breytingar, og ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, vill hann gera á lögum varðandi RÚV til að mæta þeirri stöðu sem RÚV er í?