144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

kjaramál lækna.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hinn bitri raunveruleiki íslenskrar þjóðar er sá að fyrir hrun vorum við með laun sem stóðust samjöfnuð við aðrar norrænar þjóðir og nú erum við með laun á pari við Slóvakíu. Laun okkar allra hafa lækkað um helming. Stéttir sem búa yfir alþjóðlegri menntun og hafa alþjóðlega viðurkennd starfsréttindi eins og læknar, sem eru eftirsóttir um allan heim, munu auðvitað og þurfa auðvitað að sækja sér kjör sem eru sambærileg við það sem gerist annars staðar. Í þessu er mikill vandi fólginn fyrir ríkisstjórn sem heldur dauðahaldi í íslenska krónu.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá einhver stefna í kjarasamningum ríkisins? Hér er talað fyrir allt annarri launastefnu, af hálfu fjármálaráðherrans, en þeirri sem varð ofan á í samningum við framhaldsskólakennara í vetur, svo að eitt dæmi sé tekið. Ég get ekki betur séð en að mikill áherslumunur sé á milli heilbrigðisráðherrans og fjármálaráðherrans.

Það skiptir líka máli að koma með skýr fyrirheit um uppbyggingu (Forseti hringir.) sjúkrahússins þannig að aðstæður (Forseti hringir.) að öðru leyti, sem fólki eru búnar hér í starfi í heilbrigðisþjónustu, séu sambærilegar við það sem gerist í öðrum löndum.