144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

eftirlit með lögreglu.

[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stundum er spurt: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum sjálfum?

Fyrrverandi lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, hefur sjálfur kallað eftir því sem er stundum kallað sjálfstætt eftirlit með lögreglunni. Sumir kalla það innra eftirlit, aðrir kalla það ytra eftirlit, ég kalla það sjálfstætt eftirlit. Lögreglan er sérstök stofnun að mörgu leyti. Hún getur safnað upplýsingum um fólk og gerir það vitaskuld. Hún getur unnið úr þeim upplýsingum eins og frægt er orðið. Hún getur hlerað samtöl fólks, vitaskuld með dómsúrskurði. Hún getur leitað á fólki. Hún getur svipt fólk frelsi og síðast en ekki síst er hún með einkaleyfi á beitingu ofbeldis, ofbeldis sem getur og hefur leitt af sér dauða.

Nú tala ég ekki gegn þessum heimildum svo lengi sem til staðar séu skýr og sanngjörn og rökrétt skilyrði, en víða erlendis þekkist það að lögreglan samanstendur þegar allt kemur til alls af fólki og fólk er brigðult.

Því langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hver afstaða hans er til stofnunar sjálfstæðs eftirlits með lögreglu af einhverju tagi.