144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

lykilþættir er varða mögulegan útflutning orku um sæstreng.

329. mál
[15:41]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um það hvort leyfð skuli beiðni um skýrslu um möguleg atriði er varða áhrif sæstrengs á ýmsa þætti hér. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þessari skýrslubeiðni og þakka hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að leggja hana fram sem segir mér að þeir skilji loksins að það þarf að skoða málið vandlega áður en við ákveðum hvort ráðist verði í framkvæmd af þessari stærðargráðu eða ekki.

Ég fagna því mjög að þessi beiðni sé komin fram. Hún er algjörlega í samræmi við það vinnulag sem hefur verið viðhaft í minni ráðherratíð varðandi þetta mál. Ég hef unnið að því, og við í ráðuneytinu, að kortleggja hvaða verkefni þurfi að skoða í kjölfar vinnu atvinnuveganefndar þannig að mér sýnist að þetta geti farið ágætlega vel saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)