144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

yfirstjórn vísinda og háskóla.

254. mál
[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn um mikilvægt mál. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt að hún styður í verki, ekki bara í orðum, vísinda- og nýsköpunarstarf á Íslandi.

Eins og kunnugt er sitja í Vísinda- og tækniráði alls sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar ásamt völdum hópi fulltrúa vísinda- og háskólamanna, atvinnulífs og hagsmunaaðila á vinnumarkaði. Þetta fyrirkomulag er að finnskri fyrirmynd og var sett á laggirnar fyrir rúmum tíu árum og það í þverpólitískri sátt. Þar eru lagðar línur um skipan málaflokksins næstu árin að undangenginni samræðu í báðum starfsnefndum ráðsins, vísindanefnd og tækninefnd.

Í vor var samþykkt, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, metnaðarfull aðgerðaáætlun, sem er útfærsla á nýsamþykktri stefnu ráðsins til ársins 2016. Þar er tilgreind 21 aðgerð sem á að hrinda í framkvæmd á næstu missirum, skilgreindir ábyrgðaraðilar að hverri um sig og tiltekið það fjármagn sem hver og ein aðgerð þarf. Þess má geta að í fyrsta skipti í sögu ráðsins er stefna ráðsins sett fram í formi aðgerðaáætlunar af þessu tagi, sem er vinnulag sem þessi ríkisstjórn mun beita sér fyrir að verði áfram, sem sagt aðgerðir en ekki bara orð.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt áætlun um 2,8 milljarða kr. framlag á næstu tveimur árum til að efla samkeppnissjóði, bæta hagtölugerð um vísinda- og nýsköpunarmál og söfnun upplýsinga um árangur af vísinda- og nýsköpunarstarfi í miðlægt upplýsingakerfi. Gert er ráð fyrir að framlag atvinnulífsins til vísinda- og nýsköpunarmála aukist á sama tíma um 5 milljarða kr. með ýmsum ráðstöfunum, betri nýtingu á þeim skattahvötum sem fyrir eru í kerfinu og ýmsum kerfisþáttum sem eru nú til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin ætlar með aðgerðum sínum að koma eftirfarandi til leiðar, sem lýtur að fyrirspurn hv. þingmanns:

Að fjárfesting í vísindum og nýsköpun aukist um allt að 8 milljarða kr. á árunum 2015–2016,

að fjárfesting atvinnulífs aukist um 5 milljarða, meðal annars með tilkomu skattalegra hvata,

að opinber fjárfesting hækki um 2,8 milljarða, sem renni að mestu leyti gegnum samkeppnissjóði,

markvissar aðgerðir leiði til eflingar raun- og tæknigreinanáms, doktorsnáms og aukinnar nýliðunar í vísindum og nýsköpun til að svara örum breytingum í samfélagi og atvinnulífi.

Ein af fjórum lykilaðgerðum í aðgerðaáætluninni er einmitt aðgerð sem varðar einföldun á stofnanakerfi rannsóknarstofnana. Í verkefnisáætlun um þessa aðgerð, sem unnin hefur verið í forsætisráðuneytinu, er gert ráð fyrir að skipaður verði verkefnishópur sem vinni stöðumatsskýrslu um rannsóknarstofnanir á grundvelli hennar. Í skýrslunni skuli fjallað um þá aðila sem lög um rannsóknarstofnanir mundu ná yfir og fjallað um mögulega sameiningu viðfangsefna sem nú eru unnin á fleiri en einni stofnun eða eru eðlislík.

Gera skal grein fyrir þeim valkostum sem fyrir hendi eru, fjalla um áhrif af þeim og færa rök fyrir þeirri leið sem mælt er með. Í skýrslunni skal vera samantekt um kröfur sem gerðar eru til viðlíka stofnana í nágrannalöndunum.

Í ljósi þess að nú er að störfum verkefnisstjórn um stofnanakerfi ríkisins, sem hefur það hlutverk að skoða stofnanakerfi ríkisins í heild, hefur forsætisráðuneytið ákveðið að óska liðsinnis þeirrar verkefnisstjórnar varðandi skipulag rannsóknarstofnana sérstaklega og lagalega umgjörð, meðal annars hvort tilefni er til að setja sérstaka rammalöggjöf um rannsóknarstofnanir eins og hv. þingmaður spurði sérstaklega um áðan. Ákvarðanir um lagabreytingar verða teknar þegar niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar um samvinnu stjórnmálahreyfinga á sviði vísindamála má nefna að í skýrslu um jafningjamat á rannsóknum, sem kom út í september sl., lýtur ein ábendingin að því að lyfta umfjöllun um vísindamál inn á Alþingi og gera þann málaflokk sýnilegri. Meginskilaboð skýrslunnar eru þó að allir í kerfinu, einstaka vísindamenn, háskólar og stofnanir, taki sig á, eins og það er orðað, og vinni betur saman og geri vísindastörf sín sýnileg í samfélaginu. Samvinna þessara aðila er mikilvægust en það er líka, eins og ég gat um, æskilegt að umræða um hana birtist í auknum mæli hér á þinginu. Það er hægt með sérstakri umræðu um vísindamál í nefndum Alþingis, t.d. í allsherjar- og menntamálanefnd eða í annarri umræðu hér á þingi.

Vísinda- og nýsköpunarmál eru meðal megináherslumála ríkisstjórnarinnar og eins og hef rakið er ríkisstjórnin með aðgerðaáætlun sinni að koma fram (Forseti hringir.) með aðgerðir sem umbylta þessu umhverfi til lengri og skemmri tíma.