144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

yfirstjórn vísinda og háskóla.

254. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Aðgerðir en ekki orð, við getum alveg tekið undir það, og það var líka fjöldinn allur af aðgerðum framkvæmdur á síðasta kjörtímabili. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra var eitthvað að vitna til þess að skortur hefði verið á því en nefni bara hið samræmda gæðakerfi, alþjóðlegt gæðaráð, breytingar á skattumhverfi vísinda- og nýsköpunarfyrirtækja og stóraukið samstarf háskóla. En að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem þarf að vera í stöðugu ferli.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi um umræðu á hinum pólitíska vettvangi. Það er rétt að fyrirkomulagi Vísinda- og tækniráðs var komið á í þverpólitískri sátt, en það eru alveg skýr skilaboð hér, í þessari úttekt hinna erlendu sérfræðinga — þrjú lykilskilaboð og ein af þeim eru að það þurfi aukna skuldbindingu, getum við sagt, aukinn áhuga stjórnmálanna á þessum málaflokki. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvernig hæstv. forsætisráðherra sér þetta fyrir sér.

Hann veltir því hér upp að hugsanlega mætti hafa sérstakar umræður eða eitthvað slíkt. Ég þykist vita að það liggi inni beiðni um eina slíka. Hefði ekki verið rétt til að mynda að koma hér bara og gera Alþingi grein fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og efna þannig til umræðu þannig að við gætum tekið þátt í henni og lyft henni dálítið á hinu pólitíska sviði, því að þetta eru ein af lykilskilaboðum?

Númer tvö er síðan að kalla á alla aðila í kerfinu til samráðs. Og þá kem ég að hinni spurningunni, sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að fyrir hans seinna svar. Hann nefndi að hér hefði verið sett ein rammalöggjöf um rannsóknastofnanir og hugsanlegar sameiningar væru hjá verkefnisstjórn sem væri að skoða heildarstofnanakerfi ríkisins. Nú er búið að vinna talsvert starf hvað varðar rannsóknastofnanirnar. Ég spyr: Mun það ekki bara tefja málið að setja þetta inn í heildarstofnanastrúktúrinn? Og mig langar að spyrja: Hvenær eiga niðurstöður þess hóps að liggja fyrir, því að hæstv. ráðherra sagði, ef ég heyrði rétt, að þá yrðu skoðaðar breytingar á löggjöf? Það væri því upplýsandi fyrir okkur að vita nákvæmlega hvernig tímaáætlunin er í þessu.