144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar getum litið yfir hagsögu okkar sem einkennist af miklum sveiflum í efnahagslífinu sem auðvitað hafa áhrif á gengi gjaldmiðilsins okkar, þar af leiðandi höfum við miklar sveiflur í verðbólgu og þekkjum það. Verðtrygging lána og launa kom jafnframt til á sama tíma til að bregðast við þessu. Með falli íslensku bankanna og hruni gjaldmiðilsins hafði það náttúrlega gríðarlega áhrif á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og námslána heimilanna sem og auðvitað alla aðra verðtryggða þætti eins og leigu og slíkt.

Seðlabankinn hefur í riti sínu um fjármálastöðugleika bent á að áhættan af erlendri skuldabyrði sé þó nokkur varðandi mögulegar gengissveiflur og hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur bent á að það sé erfitt við afnám hafta að segja nákvæmlega fyrir um hver viðbrögð fjárfesta og almennings verði. Það kemur jafnframt fram í ritinu um fjármálastöðugleika að munurinn á aflandsgengi og gengi Seðlabankans er um 17% þrátt fyrir að gengið hafi styrkst um 20% á síðastliðnum 12 mánuðum vegna uppsöfnunar á gjaldeyrisforða og tiltölulega hás vaxtastigs hér í landi. Því má ætla að ef greiðslubyrðin af erlendum skuldbindingum þyngist frekar eða ef til afnáms hafta komi, sem við skulum nú vona að það geri, muni það hafa áhrif til hækkunar á verðtryggð lán heimilanna.

Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar og hvort verið sé að undirbúa það í fyrsta lagi vegna losunar fjármagnshafta og í öðru lagi vegna þungrar greiðslubyrði erlendra skuldbindinga þjóðarbúsins.