144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það skiptir verulega miklu máli að stjórnvöld gæti á hverjum tíma að því sem þau geta gert til að lágmarka sveiflur í gengi gjaldmiðilsins. En stundum er það nú svo að við það verður ekki ráðið ef hagsveiflur eiga sér stað, einhverjar breytingar í ytra umhverfinu hjá viðskiptalöndum okkar eða hér innan lands, og þá breytist gengi gjaldmiðilsins bara í samræmi við það og endurspeglar þennan nýja veruleika.

Hér er spurt hvort fram fari undirbúningur af hálfu ráðherra á mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir höfuðstólslækkun verðtryggðra lána eða önnur slík áhrif vegna losunar fjármagnshafta. Því er til að svara að í sjálfu sér gengur vinnan um losun fjármagnshaftanna að verulegu leyti út á það að lágmarka áhrif á gengi íslensku krónunnar við losun haftanna. Ég lít þannig á þetta verkefni að á árinu 2008 og 2009 hafi aðlögunin að langmestu leyti komið fram. Það er árið þegar Kauphöllin þurrkaðist út. Það er árið þegar lífeyrissjóðirnir afskrifuðu 80% af skuldabréfum á innlend fyrirtæki. Þetta eru árin sem verðtryggðu lánin hækkuðu hjá heimilunum og við höfum verið að ræða æ síðan hvernig eigi að bregðast við því. Þetta eru árin þegar atvinnuleysi rauk upp og þetta eru árin þegar eignaverð í landinu lækkaði, kaupmáttur dróst saman. Þetta eru árin sem aðlögunin að hinum nýja veruleika átti sér stað; raungengi íslensku krónunnar lækkaði mjög verulega.

Þess vegna segjum við: Núna þegar við stígum skref til þess að létta höftunum af efnahagslífinu er gríðarlega mikilvægt að við gerum það með þeim hætti að það verði ekki þörf fyrir nýja aðlögun, að það þurfi ekki aftur að fara í kollsteypur með fyrirtækjarekstur eða rekstur heimilanna í landinu. Það er algjört grundvallaratriði. Af þeim sökum hefur vinnan að langmestu leyti gengið út á einmitt það sem hér er spurt um, að stíga þannig fram að áhrifin verði lágmörkuð fyrir verðbólgu og gengisbreytingar. Væntanlega er það nú þannig að við munum aldrei geta séð fyrir alla mannlega hegðun eftir að höftum er aflétt.

Þessu til viðbótar gæti ég líka nefnt að við höfum svo sem á undanförnum árum verið að styrkja ramma opinberra fjármála sem hnígur í þessa sömu átt. Ég nefni hér stofnun fjármálastöðugleikaráðs. Ég nefni frumvarp til laga um opinber fjármál. Ég nefni þjóðhagsvarúðartæki sem rætt hefur verið um í skýrslu Seðlabankans og önnur slík úrræði sem við trúum að til lengri tíma komi til með að draga úr sveiflum í hagkerfinu og eru til þess fallin að draga fyrr fram á sjónarsviðið hættumerki sem eru að nálgast okkur á efnahagssviðinu.

Hvað varðar þunga greiðslubyrði erlendra skuldbindinga þjóðarbúsins er það einn lykilþáttur málsins. Við þekkjum til dæmis hinar miklu skuldbindingar Landsbankans til skamms tíma. Þær eru einn þátturinn. Fyrirtæki önnur hafa líka verið að lengja í lánum. Það skiptir máli fyrir heildarsýnina á þetta verkefni vegna þess að íslenska þjóðríkið er ekki í neinum eiginlegum skuldavanda, þ.e. gjaldeyrishöftin eru ekki til komin vegna mikils skuldavanda þjóðarbúsins, þetta er greiðslujafnaðarvandi. Þess vegna hefur þurft að leggja áherslu á lengingu ákveðinna lána, en eins hefur líka frá upphafi legið fyrir að til þyrftu að koma afskriftir krafna á slitabúin ella væri hætta á greiðslufalli við afnám haftanna.

Við höfum síðan á þessu ári náð að endurfjármagna hluta skulda ríkisins á betri kjörum, sem er skref í rétta átt. Ég trúi því einnig að þegar við stígum stór skref við losun haftanna þá muni kjör okkar, hvort sem er hið opinbera eða á einkamarkaði, fara að batna sem mun enn (Forseti hringir.) frekar létta undir vegna þessarar greiðslustöðu.