144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra á hrós skilið fyrir það hversu málefnalega hann svarar yfirleitt erfiðum spurningum. Þar ferst honum öðruvísi en hæstv. forsætisráðherra sem einatt svarar skætingi.

Það er við ramman reip að draga þar sem gjaldeyrishöftin eru og sá „reipur“ teygir sig til ólíklegustu túna. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra sagði að Landsbankinn glímdi við erfiða skuldastöðu. Síðan sagði hann orðrétt: „Önnur fyrirtæki hafa líka verið að lengja í sínum lánum.“

En er það svo að Landsbankinn hafi verið að lengja í sínum lánum? Er það ekki einmitt togstreitan sem núna er innan ríkisstjórnarinnar, eða hvar sem hún er, um hvort það eigi að lengja í láninu. Það er einmitt út af því sem spurning hv. þingmanns er full tilefnis vegna þess að skýrslan sem hún vitnaði til um fjármálalegan stöðugleika segir bókstaflega að ef ekki verði lengt í láninu muni af því stafa gengisfall upp á 7–10%.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver verða afdrif þess samnings sem gerður var um það ágæta bréf?