144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

Húsavíkurflugvöllur.

227. mál
[16:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég neita því ekki að mér finnst stundum svolítið skuggalegt hvað þau eru sammála hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Kristján L. Möller þegar kemur að samgöngumálum. Ég vil þó segja að ég tek undir það sem er snertiflötur þeirra í þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli, ekki síst með tilliti til uppbyggingarinnar sem er fyrirhuguð á Húsavík og vonandi í grennd, að flugvöllurinn verði til taks og hann verði mikilvægur punktur í samgöngum til og frá þeim stað.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að það sé fyllilega einnar messu virði að kanna hvort sveitarfélög eftir atvikum geti tekið þátt í eða séð um að reka slíkt eins og er andlag fyrirspurnarinnar, en hins vegar geri ég ágreining við hæstv. ráðherra um eitt, hún sagði „eða aðra þá“ og átti væntanlega við einhver fyrirtæki. Ég er andsnúinn því þó að ég sé reiðubúinn til að hlusta á rök hæstv. ráðherra. Ég er til í það (Forseti hringir.) að sveitarfélagið komi að þessu og reki (Forseti hringir.) hugsanlega flugvöllinn. En frú forseti, ég er því andsnúinn, og verð að trúa hæstv. forseta fyrir því, að einhver (Forseti hringir.) utanaðkomandi fyrirtæki eigi að koma inn á þessu stigi.