144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.

325. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil líka þakka fyrir hversu vel og ítarlega þingmenn og margir aðrir fylgjast með því að þetta verkefni gangi vel eftir enda held ég að það sé mikilvægt.

Það koma auðvitað upp margar spurningar í kringum þessar breytingar, ekkert óeðlilegt við það og sjálfsagt að reyna að bregðast við því og tryggja að grunnhugsun þeirra laga sem hér náðist sátt um haldist. Ég fagna því sérstaklega.

Ég svaraði þann 20. október sl. sambærilegum spurningum um stöðu mála í Norðausturkjördæmi. Ég ítreka það sem ég sagði þá að í lagasetningunni og greinargerð með lögunum kemur fram að í þessum breytingum er leitast við að raska högum starfsfólks hinna gömlu embætta sem minnst enda voru það líka ákveðin rök til að tryggja sátt í málinu. Lögð er sérstök áhersla á að þeir starfsmenn sem voru til staðar áður en breytingin varð haldi störfum þó að það geti verið að einhver störf breytist með einhverjum hætti eða starfsmenn kunni að hlíta tilteknum breytingum á starfi til lengri tíma.

Svo ég víki að efnisatriðum spurninga hv. þingmanns er gert ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að í Suðurkjördæmi verði þrjú umdæmi sýslumanna; umdæmi sýslumanns á Suðurnesjum, umdæmi sýslumanns á Suðurlandi og umdæmi sýslumanns í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því að bæði sýslumaður og lögreglustjóri eru í Vestmannaeyjum var niðurstaða þingnefndar hér. Frumvarpið var í upphafi ekki borið fram með þeim hætti en niðurstaða þingnefndar var að farsælast væri að vinna það þannig vegna sérstöðu Eyjanna.

Í drögunum er einnig gert ráð fyrir að starfsstöðvar sýslumannanna þriggja verði á öllum þeim sömu stöðum og nú er, þ.e. að áfram verði þar skrifstofur. Stefnt er að því að reglugerð um umdæmi og starfsstöðvar sýslumanna verði gefin út nú í nóvembermánuði. Unnið er í góðu samstarfi við nýja sýslumenn sem skipaðir hafa verið í þessi þrjú embætti, en þeir eru Ásdís Ármannsdóttir á Suðurnesjum, Anna Birna Þráinsdóttir á Suðurlandi og Lára Huld Guðjónsdóttir í Vestmannaeyjum. Undirbúningur að breytingunum er hafinn og gengur vel.

Eins og menn þekkja felast breytingarnar í Vestmannaeyjum eingöngu í aðskilnaði löggæslu frá starfsemi sýslumanns. Á Suðurnesjum hafði löggæsla þegar verið aðskilin frá starfsemi sýslumanns. Mesta breytingin verður því á Suðurlandi þar sem sameining verður meira afgerandi en á hinum stöðunum og undirbúningur að hinu nýja embætti sýslumanns á Suðurlandi er hafinn.

Hvað 2. spurningu varðar, þar sem spurt er um rök fyrir staðsetningu sýslumanna í kjördæminu, er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að starfsstöðvar sýslumanna verða hinar sömu þó að aðalskrifstofur verði á ákveðnum stað. Ákvörðun um það fer fram í gegnum vinnu í ráðuneytinu þar sem var útbúið ákveðið umræðuskjal í gegnum landshlutasamtök, Samband íslenskra sveitarfélaga og síðan sýslumenn á hverju svæði eins og kemur fram í lögunum.

Varðandi 3. spurningu, um það hvort þjónusta sýslumanna verði svipuð eftir breytingarnar og hún er nú, hef ég áður sagt að miðað er við það. Það er eitt meginmarkmið hinna nýju laga að þjónusta sýslumannsembættanna verði eins góð og mögulegt er og ef eitthvað er takist okkur að styrkja hana með því að færa verkefni frá hinni miðlægu stjórnsýslu og út til sýslumannanna. Þessa umræðu þekkjum við og við höfum auðvitað rætt þetta oft hér. Ég hef þegar flutt frumvarp og fengið samþykkt um að verkefni frá innanríkisráðuneytinu og öðrum stofnunum ráðuneytisins séu flutt til sýslumanna og hefur það verið framkvæmt.

Þær fjárveitingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 samsvara verðbættum framlögum til eldri embætta. Það er ekki gert ráð fyrir niðurskurði samkvæmt núgildandi fjárlögum, reyndar að teknu tilliti til almennrar hagræðingarkröfu, þannig að við vonumst til þess að þetta fé dugi. Við áttum okkur hins vegar á því að ákveðnir þættir, sérstaklega er tengjast sýslumannsembættum og upplýsingakerfi þeirra, þurfa ákveðins stuðnings við.

Ég vil í lokin nefna löglærða fulltrúa þar sem það hefur verið gert að sérstöku umræðuefni, ég þekki það vel. Margir fundir hafa farið fram á vettvangi innanríkisráðuneytisins vegna umræðunnar um hvort löglærðir fulltrúar verði á þeim starfsstöðvum þar sem áður var sýslumaður. Þá er sérstaklega verið að ræða um mönnun á Höfn í Hornafirði. Það hefur staðið til og við höfum lagt áherslu á það og ég hef sérstaklega óskað eftir því að reynt verði að mæta óskum heimamanna um að þar verði löglærður fulltrúi. Að því er stefnt og ég vona að það gangi allt eftir.

Fyrst og síðast vonast ég til að okkur auðnist að standa við gefin fyrirheit um að breytingarnar verði til að efla þjónustu á svæðinu og tryggja að þessi mikilvæga þjónusta verði nær heimamönnum og eins góð og hún mögulega getur orðið.