144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Suðurkjördæmi.

325. mál
[16:50]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa fyrirspurn. Ég var á þessum fundi, ársþingi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, og það er víst óhætt að segja að þar hafi menn verið virkilega reiðir yfir þessu. Það kom mér satt að segja svolítið á óvart vegna þess að mér fannst í vinnunni í allsherjar- og menntamálanefnd þegar þetta var til meðferðar mikil samstaða um að lenda málinu svona. Ég upplifði líka í þessari nefndarvinnu að um þetta yrði haft fullt samráð við landshlutasamtökin hvað varðar það að setja niður sýslumenn og lögreglustjóra.

Maður getur svo sem alveg skilið þessa reiði og þessa ólgu sem var þarna, hún virtist helst beinast að því að ekki verði löglærður starfsmaður á Höfn og ég vona bara, af því að það fyrirheit var gefið í þessu frumvarpi, að svo verði.

Hvað varðar Vestmannaeyjar fannst mér persónulega fullkomin rök fyrir því hvers vegna það var gert. Það voru allir sammála um það. Ég vona bara að þessi vinna haldi áfram og náist í sátt. Það er lykilatriði.