144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins.

199. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns fyrir hönd landbúnaðarvængs Samfylkingarinnar óska hæstv. ráðherra og íslenskri bændastétt til hamingju með þá sigurför sem íslenska skyrið hefur farið um heiminn. Síðast tyllti hún sér niður í Kaupmannahöfn þar sem íslenska skyrið vann þrenn gullverðlaun á alþjóðlegri mjólkurafurðasýningu. Þetta tengist einmitt efni þess máls sem ég flyt hér fyrir hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra er mætavel kunnugt um það að í 19. gr. EES-samningsins er heimild fyrir Ísland til að gera tvíhliða samning um landbúnaðarafurðir við Evrópusambandið. Sá samningur sem síðast var gerður held ég að reki sig aftur til ársins 2007. Samkvæmt honum mega Íslendingar flytja inn á markaði Evrópusambandsins 1.850 tonn af lambakjöti og 380 af okkar ágæta skyri. Það er reyndar athyglisvert að þegar maður skoðar söguna kemur í ljós að þessi 1.850 tonn eru í reynd engin aukning frá því að Norðurlöndin þrjú gengu inn í Evrópusambandið á sínum tíma. Þá voru þau samanlagt með næstum því 1.800 tonn.

Við höfum kannski ekki gengið svo fast eftir því í tímans rás að auka þennan kvóta. Það hefur hins vegar góðu heilli gerst á síðustu árum að íslenskt lambakjöt hefur náð fótfestu á mörkuðum í Evrópu. Það gæti ég auðvitað notað til þess að segja við hæstv. landbúnaðarráðherra að það væri hollt fyrir sauðfjárræktina ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Viðtökurnar sýna að þegar tollarnir eru felldir niður er þar ágætismarkaður. Það er raunar líka, eins og hæstv. ráðherra veit, sökum gæða kjötsins sem ég tel að sé hugsanlega besta kjöt í heimi og standi jafnfætis íslenska hrossakjötinu sem er ákaflega létt á minni tungu, og gott. En vegna þessa og vegna þess að skyrið hefur líka náð ótrúlegum árangri þar sem menn eru farnir að selja það komu íslenskir framleiðendur til ríkisstjórnarinnar 2011 og óskuðu eftir því að reynt yrði að fá aukningu á kvótanum. Viðræður fóru ákaflega vel af stað. Þegar ég hins vegar gekk eftir því gagnvart hæstv. utanríkisráðherra á síðasta ári hvernig þær stæðu fannst mér verða fátt um svör.

Hæstv. landbúnaðarráðherra er oft svarabetri og þess vegna legg ég fyrir hann þessar spurningar og hnýti við spurningu um eftirlæti okkar beggja, sem er vernd íslenskra afurðarheita. Hún kom inn í málið á sínum tíma þegar þessar viðræður voru hafnar 2011 og ég spyr hann líka hvort hann hyggist þætta þær inn í þær samningaviðræður sem ég veit að hann veitir forstöðu núna.