144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins.

199. mál
[16:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda áhugaverðar fyrirspurnir og tek undir hamingjuóskir til handa íslenskum mjólkurframleiðendum og mjólkuriðnaði vegna velgengni með skyrið.

Hvað líður samningum um hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins er það rétt að viðræðurnar hafa tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað. Þær hófust á haustmánuðum 2011 og hafa staðið með nokkrum hléum síðan þá. Í millitíðinni hafa þó farið fram óformlegar þreifingar og samtöl til að reyna að finna lausnir sem báðir aðilar geti búið við. Næsti formlegi fundur hefur verið ákveðinn á Íslandi 12.–13. febrúar nk. Síðasti formlegi fundur var aftur á móti haldinn í Brussel 11. október 2013 og þar áður var haldinn fundur á Íslandi 8. mars.

Varðandi þær kröfur sem Ísland hefur gert í upphafi hefur í málflutningi okkar verið lögð rík áhersla á algera gagnkvæmni í niðurfellingum tolla, þ.e. að vörur sem eiga að vera á núlltollum inn til Íslands verði einnig á núlltollum inn til Evrópu frá Íslandi. Samningurinn mun ná yfir landbúnaðarvörur í tollköflum 1–24. Hugmyndin er að semja um núlltolla á sem flestum tollalínum og/eða lækkun almennra tolla á viðkvæmum vörum eftir atvikum. Þá eru uppi hugmyndir um að semja um sérstaka tollkvóta milli aðila.

Í þessu sambandi er rétt að halda til haga að í maí 2011 fóru Landssamtök sláturleyfishafa þess á leit við stjórnvöld að þau beittu sér fyrir samningum við Evrópusambandið um stærri tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir lambakjöt á markaði sambandsins. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er innflutningskvótinn í dag 1.850 tonn en óskað var eftir að kvótinn yrði aukinn í 4 þús. tonn. Áhugi hefur einnig komið frá fulltrúum annarra kjöttegunda um útflutningskvóta, m.a. fyrir svína- og kjúklingakjöt.

Þá fóru Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði fram á að fá allt að 5 þús. tonna aukinn skyrkvóta en hann er einungis um 380 tonn í dag. Á móti hafa kröfur Evrópusambandsins aðallega lotið að stækkun núverandi tollkvóta inn til Íslands, m.a. á kjöti og mjólkurvörum, einkum ostum. Að mati okkar hefur Evrópusambandið ekki metið nægjanlega mikið niðurfellingu almennra tolla á fjöldamörgum tollskrárlínum sem mundi fyrst og fremst gagnast þeim vegna þess fjölbreytta vöruframboðs sem þaðan kemur. Útflutningur frá Íslandi er aftur á móti frekar einsleitur og bundinn við frekar fáar vörutegundir. Mikil slagsíða er á vöruviðskiptum með landbúnaðarvörur við Evrópusambandið þar sem innflutningur á árinu 2013 var 36,6 milljarðar en útflutningur héðan einungis tæpir 3 milljarðar.

Hv. þingmaður minntist á vernd afurðarheita. Það er rétt að það hefur komið upp í tengslum við slíka samninga og eins og fyrirspyrjanda er kunnugt hef ég þegar mælt fyrir frumvarpi til laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Það er ekkert launungarmál að Evrópusambandið hefur í viðræðunum lagt mikla áherslu á að gerður verði samningur milli aðila um viðurkenningu á vörum sem falla undir þessa löggjöf, þ.e. gagnkvæma viðurkenningu. Ísland er hins vegar trúlega búið að missa tækifærið til að semja um vernd á „skyri“, eins og ég hef áður sagt, vegna þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir í öðrum löndum um framleiðslu á skyri. Við ættum hins vegar að geta fengið viðurkenningu á heitinu „íslenskt skyr“.

Hv. fyrirspyrjandi spyr líka hvað valdi tregðu í þessum samningum sem fóru upphaflega mjög vel af stað, sem er rétt. Fyrir því eru svo sem ýmsar ástæður en aðallega er það krafa Evrópusambandsins um stóra tollkvóta inn til Íslands án þess að þeir hafi verið tilbúnir að gefa eftir með sambærilegum hætti.