144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins.

199. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá fyrirspurn sem hér er borin fram og hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná.

Hér er talað um hið frábæra íslenska skyr sem við heyrum að fer nú mikla sigurför, sérstaklega í nágrannalöndum, og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í þann orðróm sem er í gangi meðal þjóðarinnar, sem ég held að sé ákaflega slæmur, að íslenska ríkið greiði beingreiðslur fyrir þá mjólk sem notuð er í skyrframleiðslu sem er flutt frá Íslandi, t.d. til Finnlands. Er það svo?

Í öðru lagi langar mig að hnykkja á síðustu spurningunni sem hæstv. ráðherra fjallaði um í lok svarsins, þ.e. um samningana sem fóru vel af stað í byrjun en eru í einhverju stoppi núna. Er það nokkuð vegna innbyggðrar andúðar hæstv. ráðherra og annarra framsóknarmanna á Evrópusambandinu að ekki er fylgt eftir þeim samningum (Forseti hringir.) sem hér er fjallað um?