144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins.

199. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra alveg sérstaklega fyrir óvanalega skýr svör. Það er sjaldgæft að ráðherrar svari jafn skilmerkilega og hæstv. ráðherra gerði. Ég varpaði svipuðum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra fyrir tæpu ári og fékk nánast engin svör, en mér fundust þessi svör alveg prýðileg og málefnaleg við því sem ég spurði um.

Það er sorglegt að vita til þess að við skulum hugsanlega vera búin að tapa af tækifærinu til þess að vernda heitið „skyr“. „Íslenskt skyr“ dugar þó. Sorglegast finnst mér við þær upplýsingar sem koma fram hjá hæstv. ráðherra að enginn fundur hafi verið haldinn síðan í október í fyrra. Það er meira en ár síðan. Þó skiptir þetta mjög miklu máli af hálfu íslenskra bænda. Markaðirnir í Evrópu eru gríðarlega öflugir þegar horft er til þess að það sem þeir telja að sé hægt að afsetja þar af lambakjöti er 50% af framleiðslu eins og hún er í dag. Þess vegna skiptir þetta máli.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru líka gerðir mikilvægir samningar við Rússa sem eru að skila töluvert miklum árangri núna á jafnvel óvæntum sviðum. Fríverslunarsamningurinn við Kína er líka óurinn akur og ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefur sýnt meiri áhuga og kunnáttu í samskiptum við erlendar þjóðir en flestir aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, til að beita sér fyrir því að sá samningur verði notaður fyrir bændur. Hvað veldur tregðunni?

Þegar ég heyri að ekki hefur verið haldinn fundur síðan í október í fyrra og bersýnilega gengur ekki neitt rifja ég upp að ég varaði við því úr þessum ræðustól að þetta mundi gerast vegna þeirrar ókurteisi og sérkennilegu framkomu sem ráðherrar sýndu þegar þeir fóru til Brussel í upphafi kjörtímabilsins og sögðu eitt í Brussel en annað heima, (Forseti hringir.) sögðu í Brussel að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna en allt annað heima. Menn verða alltaf að vera hiklausir og segja satt. En ég kvarta ekki undan því (Forseti hringir.) gagnvart þessum hæstv. ráðherra.