144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

hækkun tollkvóta inn á markaði Evrópusambandsins.

199. mál
[17:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa málefnalegu umræðu um mjög mikilvæg málefni. Varðandi spurningar hv. þm. Kristjáns L. Möllers fara engar beingreiðslur til þessarar útflutningsafurðar til Finnlands. Það er langt síðan við lögðum af útflutningsbætur og þetta er dæmi um umræðu um landbúnaðarmál á Íslandi. Það er alltaf talað eins og hér sé 1985 eða eitthvað þaðan af fyrr. Hins vegar hefur margt gerst síðan.

Það er rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á, það hafa engir fundir verið í heilt ár en það er ekki við okkur að sakast. Það er mikilvægt að átta sig á því. Við sóttumst hart eftir því og það er engan veginn (Gripið fram í.) vegna andúðar framsóknarmanna á ESB. Við höfum ekki neina andúð á ESB, við teljum (ÖS: Láttu ekki svona.)hins vegar óskynsamlegt fyrir Ísland að vera aðili að Evrópusambandinu. Það er allt annað. Og þvert á móti fylgir Evrópusambandinu, ýmissa hluta vegna eins og við höfum oft bent á, talsvert skrifræði. Allt sem þar gerist tekur langan tíma og þess vegna hefur samningafundurinn ekki komist á.

Það er líka mjög mikilvægt að horfa til þess, og það eru þær kröfur sem við höfum sett, að þetta eru gagnkvæmir samningar. Það fer ekki ein skyrdós á núlltolli inn í Evrópusambandið öðruvísi en að við þurfum að gefa eitthvað á móti. Þess vegna er mjög ósanngjörn sú umræða sem stundum hefur verið á Íslandi að hér ættum við einhliða að fella niður alla tolla án þess að fá nokkuð í staðinn. Það er í það minnsta ekki stefna Evrópusambandsins og það er ekki stefna núverandi ríkisstjórnar. Við leggjum áherslu á fríverslunarsamninga og ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, í fríverslunarsamningum við Kína og aðrar þjóðir liggja gríðarleg tækifæri fyrir íslenska þjóð.