144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rannsóknir á fiskstofnum á miðsævisteppinu milli Íslands og Grænlands.

201. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Lítil þjóð þarf alltaf að vera á tánum og hún þarf alltaf að vera með augun opin fyrir tækifærum sem kunna að opnast. Það hefur okkur yfirleitt lánast í sjávarútvegsmálum. Við erum einna fremst í heiminum að nýta með sjálfbærum hætti sjávarafla. Þó er það tækifærið sem ég hef stundum vakið máls á hér og vil gera en það eru möguleikar á að veiða tegundir sem er að finna í miklu magni í hafinu á milli Grænlands og Íslands.

Þegar Jakob Magnússon og hans ágæta kona Vilhelmína Vilhjálmsdóttir, bæði fiskifræðingar, stýrðu könnunarleiðöngrum 1990 millum Grænlands og Íslands komust þau að raun um að þar var að finna mjög miklar og þykkar lóðningar á sjávarlífverur. Sumrin á eftir, 1992 og 1993, stýrðu þau öðrum leiðöngrum þar sem menn, fyrir utan að kanna útbreiðslu seiða, framkvæmdu svolitlar tilraunaveiðar. Kom þá í ljós að frá 400–500 metra dýpri og niður á jafnvel 800 metra var gríðarlegt magn af fiski, ýmsum krabbadýrum, rækjum og líka mörgum tegundum af smokkfiski. Í ljós kom við könnun þessara íslensku fiskifræðinga að þær þykku lóðningar teygðu sig yfir 100 þúsund ferkílómetra svæði langt norður í haf og eins langt suður og menn skoðuðu. Mest af þessu var að finna í slakkanum í landgrunnshlíðunum og kannski minnst í úthafinu sjálfu. Þegar menn skoðuðu þetta betur voru þarna 50–60 tegundir af fiski, mikið af laxsíldum, og eins og menn vita er það fiskur sem hægt er að nota til manneldis.

Það sem var kannski markverðast í þeim rannsóknum var að þegar rökkvaði og tegundirnar stigu ofar í hafinu og menn tóku tilraunatog kom í ljós að fiskarnir greindu sig að. Á tilteknu dýpi var til dæmis hægt að taka höl sem beinlínis samanstóðu bara af tveimur tegundum laxsílda. Þetta bendir til þess að hugsanlega sé hægt að stýra veiðum á ákveðnum tímum sólarhrings til að ná tilteknum tegundum sem eru hvað verðmætastar. Tækninni hefur að minnsta kosti fleygt fram síðan menn komust að raun um þetta.

Ég tel að þarna séu gríðarleg verðmæti sem mundu geta skipt miklu máli. Ég hef talað fyrir því lengi — árangurslaust í síðustu ríkisstjórn, sem var blönk eins og menn vita — að menn ráðist í einhvers konar tilraunaveiðar til að helga okkur rétt.

Ég hef því lagt fram þessar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem ég veit að mun svara mér vel. Þetta er hagsmunamál fyrir okkur alla Íslendinga og ég tel að við verðum með einhverjum hætti að slá girðingu í kringum (Forseti hringir.) þá auðlind sem þarna er ónýtt.