144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rannsóknir á fiskstofnum á miðsævisteppinu milli Íslands og Grænlands.

201. mál
[17:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda mjög áhugaverða fyrirspurn og er sammála honum um mikilvægi þess að nýta fjölbreytta stofna í íslenskri lögsögu og einnig í hafinu í kringum okkur.

Á árinu 2014 eru litlar sem engar rannsóknir stundaðar á þeim tegundum sem fyrirspyrjandi nefnir. Þær rannsóknir sem fram hafa farið undanfarin þrjú ár hafa nær eingöngu tengst sýnasöfnun samhliða öðrum verkefnum, sérstaklega í tengslum við mælingar á úthafskarfa í Irminger-hafi og aðliggjandi hafsvæðum. Íslendingar hafa lítið sinnt rannsóknum og tilraunaveiðum á svæðinu á undanförnum árum. Á árunum 2007–2008 stóðu Hampiðjan, Hafrannsóknastofnun, Landssamband íslenskra útvegsmanna og ýmis útgerðarfélög að samstarfi um að þróa og stunda tilraunaveiðar á laxsíldum og öðrum miðsjávarfiskum. Markmiðið var að þróa veiðarfæri þannig að hægt væri að ná góðum tökum á veiðum. Veiðarfæratilraunir voru gerðar um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í Grænlandshafi sumarið 2008 með það að meginmarkmiði að ná góðum tökum á veiðiskapnum. Niðurstöður reyndust ekki mjög jákvæðar og gáfu ekki fyrirheit um arðbæran veiðiskap. Engu að síður nýttist árangur verkefnisins þegar veiðar á gulldeplu hófust innan lögsögu veturinn 2008–2009 en hún er miðsjávartegund sem finnst á umræddu miðsvæðisteppi. Alls veiddu 18 íslensk skip rúm 46 þús. tonn af gulldeplu á árinu 2009 og á árinu 2010 var afli 14 skipa tæplega 18 þús. tonn og á árinu 2011 veiddu 9 skip og var afraksturinn 9 þús. tonn. Nánast engu hefur verið landað síðan þá en vera má að verkefnastaða uppsjávarflotans spili hér eitthvað inn í.

Á árinu 2010 stóð Hafrannsóknastofnun fyrir bergmálsleiðangri og kortlagði útbreiðslu og magn gulldeplu á Íslandsmiðum. Gulldepla er mjög smávaxinn fiskur af ætt silfurfiska, verður kynþroska eins árs gömul og er þá um 2,5 sm að lengd en getur orðið fimm ára gömul og þá allt að 9 sm. Fisk var að finna frá Vesturlandi og allt austur að Austfjörðum og magnið áætlað um 250 þús. tonn, þar af um 140 þús. tonn á veiðisvæðinu. Í varúðarskyni ráðlagði Hafrannsóknastofnun að ársafli yrði ekki meiri en 30 þús. tonn. Síðan hefur ekki verið staðið fyrir viðlíka rannsókn.

Tæknilegar og fræðilegar framfarir eiga sér nú stað í bergmálsmælingum á fiskstofnum sem ættu til framtíðar að auðvelda rannsóknir á umræddu hafsvæði. Nýlegar erlendar rannsóknir benda til að samanlagður lífmassi sé umtalsvert meiri en fyrr var talið. Hér er þekking á bergmálsendurvarpi viðkomandi fisktegunda algjört lykilatriði en þörf er á frekari rannsóknum.

Norðmenn fyrirhuga rannsóknir og veiðitilraunir í Grænlandshafi og hefur Hafrannsóknastofnun nýverið tekið þátt í styrkumsókn til norskra rannsóknarsjóða. Fáist styrkirnir munu Norðmenn líklegast senda rannsóknaskip í Grænlandshaf á árinu 2016.

Margar mikilvægar hafrannsóknir þarf að fjármagna. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar ber ábyrgð á forgangsröðun verkefna en stofnuninni hefur sem kunnugt er verið nokkuð þröngt stakkur sniðinn allt frá árinu 2009. Engu að síður hefur verið gerður samstarfssamningur við grænlensku hafrannsóknastofnunina, í sumar, og aldrei að vita nema það verði mögulegt að sækja í auknum mæli i rannsóknarsjóði og horfa þá til verkefna á miðsævinu sem og annarra svæða.

Þá tel ég mikilvægt að taka fram að rannsóknir einar og sér ávinna strandríki ekki hlutdeild í stofnum komi til stýringar þeirra, eins og t.d. á miðsævinu milli Íslands og Grænlands. Rannsóknir og tilraunaveiðar þarf að stunda samhliða til að hægt sé að meta veiðiþol og áhrif slíkra veiða á vistkerfið. Í raun eru ítarlegar rannsóknir forsenda þess að hægt verði að fara af stað með umtalsverðar veiðar. Má því segja að það ráðist nokkuð af áhuga íslenskra útgerða til tilraunaveiða á umræddu svæði hvert mögulegt umfang rannsókna til framtíðar verður, hvort þær hafi hreinlega borð fyrir báru til þess að sinna slíkum rannsóknum. Það er mikilvægt að hafa stefnu í þessum málum til að skapa íslenska veiðireynslu og vísindaþekkingu á þessu sviði. Rannsóknir og tilraunaveiðar eru afar dýrar í framkvæmd, jafnt rekstur rannsóknaskipa á vegum Hafrannsóknastofnunar sem og útgerð veiðiskipa á vegum einkaaðila.

Fyrirmyndin að þessari samvinnu gæti verið með sambærilegum hætti og fyrr er frá greint í tilviki gulldeplunnar. Að öðrum kosti næst ekki nægilegur áhugi eða slagkraftur. Umfang slíkra tilraunaveiða ræðst einna helst af áhuga íslenskra útgerða til þess að stunda þær og, eins og ég sagði, möguleikum þeirra, hvort þær hafi efnahagslega burði til slíks. Veiðum á því hafsvæði sem um ræðir, þ.e. alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu ríkja, er stjórnað af Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, NEAFC, og í dag ná engar stjórnunaraðgerðir af hálfu NEAFC yfir þær tegundir sem hér um ræðir, enda eru veiðar takmarkaðar og vísindaleg þekking af skornum skammti. Veiðar á svæðinu geta skip frá aðildarþjóðum NEAFC stundað en það eru auk Íslands Noregur, Danmörk fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Rússland og Evrópusambandið. Samkvæmt bestu upplýsingum ráðuneytisins stundar ekkert þessara ríkja nú um stundir veiðar á svæðinu á þeim tegundum sem spurt er eftir.