144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

haustrall Hafrannsóknastofnunar.

319. mál
[17:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hafró er sannarlega ekki ofsæl af þeim fjárveitingum sem hún fær. Það er algjörlega hárrétt og var virkilega sneytt um hana þegar síðasta ríkisstjórn varð að grípa til mjög krappra aðgerða í kjölfar bankahrunsins.

Ég er síður en svo á móti því að stuðlað sé að samstarfi á millum Hafró, stjórnvalda og greinarinnar en það þarf þá að vera uppi á borðinu. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að verið væri að veita slíku magni aflaheimilda til verkefna af þessu tagi.

Þá vaknar spurningin um jafnræði. Hafró skortir fé en hefur hún aðra stöðu en aðrar stofnanir ríkisins sem skortir fé? Getur Landspítalinn til dæmis óskað eftir því að fá úthlutað kvóta, í gegnum hæstv. ráðherra, til að reyna að stoppa upp í sín göt? Menn verða líka að skoða þetta frá þeim sjónarhóli.

Þó að Hafró sé að sinna fiskirannsóknum þá er hún samt sem áður, gagnvart fjárlagavaldinu, einungis í hópi annarra stofnana. (Forseti hringir.) Þær hljóta að þurfa að sitja við sama borð. Kannski horfum við fram á það í þeirri (Forseti hringir.) kreppu sem ríkisstjórnin er að leiða yfir ríkisfyrirtæki að hún fari að úthluta aflaheimildum til að bjarga þeim.