144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

innflutningstollar á landbúnaðarvörum.

320. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra um fyrirkomulag innflutningstolla á landbúnaðarvörum. Við hæstv. ráðherra höfum oft átt um þetta orðastað í þingsal óbeint og ég taldi ástæðu til að beina beinni fyrirspurn til hæstv. ráðherra svo hægt væri að þoka áfram umræðu um þetta mál.

Í McKinsey-skýrslunni sem leiddi til mikillar umræðu um aukna hagsæld í landinu er meðal tillagna um hagkvæmni og aðgerðir til að auka almenna velsæld á Íslandi að finna tillögur um að fyrirkomulagi innflutningstolla á búvörur verði breytt, það verði afnumið í núverandi mynd og stuðningnum fyrir komið frekar með öðrum hætti. Dæmi var tekið af garðyrkjunni. Það er ómótmælanlegt að þetta hefur haft mjög jákvæð áhrif á garðyrkjuna, stutt við samkeppnishæfni greinarinnar, styrkt markaðshlutdeild hennar og ég held að jafnt neytendur sem garðyrkjubændur séu afskaplega sáttir við sinn hlut í þeirri umgjörð.

Þegar þetta mál hefur borist í tal hefur hæstv. ráðherra oft vísað til þess að það þyrfti að horfa til gagnkvæmni. Það er alveg rétt ef menn líta svo á að það sé verðmæti fyrir okkur sjálf í því fyrirkomulagi sem nú gildir. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel þvert á móti að umbreyting yfir í þá umgjörð sem er sambærileg við það sem garðyrkjan býr við í dag væri til góðs fyrir þær greinar sem reiða sig helst á innflutningsverndina og sérstaklega hvíta kjötið og eggin.

Ég vek líka athygli á því að bændur í þessum greinum hafa verið jákvæðir gagnvart breytingu á fyrirkomulaginu. Samtök ungra bænda hafa rakið það hversu varhugavert það sé að halda núverandi kerfi áfram og hversu mikilvægt það sé að auka markaðsfrelsi í greininni, henni sjálfri til hagsbóta.

Hæstv. ráðherra hefur oft talað um gagnkvæmar tollalækkanir en ríkisstjórninni hefur einhvern veginn tekist að koma öllum samskiptum við Evrópusambandið í uppnám. Miðað við það sem kom fram fyrr í fyrirspurnatímanum skilst mér að ekki séu miklar fréttir af samningum við Evrópusambandið um gagnkvæma lækkun tolla.

Þá spyr ég líka: Hefur ráðuneytið gert greiningar í kjölfar McKinsey-skýrslunnar um það hver ábatinn yrði fyrir samfélagið af því að grípa einhliða til þessara aðgerða? Ef menn telja aðgerðina skynsamlega í sjálfu sér er engin sérstök ástæða til að láta hana velta á gagnkvæmninni einni og sér ef við teljum að hún yrði til góðs fyrir umgjörð (Forseti hringir.) landbúnaðarins að öðru leyti.