144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

fráveitumál.

232. mál
[18:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara síðustu spurningunni sem hv. þingmaður ítrekaði hér í lokin.

Rétt er að geta þess að á síðasta kjörtímabili spurði ég fyrrverandi umhverfisráðherra tvisvar sinnum hvort til greina kæmi að taka upp stuðning ríkisins aftur við fráveituframkvæmdir. Það verður að segjast alveg eins og er að fátt varð um svör og ég gleðst þess vegna yfir því að fyrrverandi fjármálaráðherra skuli taka þetta upp hérna við mig í dag og segja að það sé útlátalítið.

Þau svör komu reyndar ekki frá ríkisstjórninni á síðasta kjörtímabili. Ég tel rétt að skoða þann möguleika eða aðrar útfærslur á því að ríkið styrki sveitarfélög í þessum efnum. Við náðum ágætisárangri, ég er sammála hv. fyrirspyrjanda í því, í fráveitumálum fyrir nokkrum árum, á tímabili þar sem ríkið lagðist á árarnar með sveitarfélögunum.

Hins vegar fór minna fyrir aðgerðum á síðasta kjörtímabili, eins og ég hef áður nefnt, og var ekkert gert til að tryggja framgang fráveitumála, einhverra hluta vegna. Við þyrftum því að bæta úr því þar sem á vantar og er mínu mati eðlilegt að skoða hvort rétt sé að skoða aðkomu ríkisvaldsins að nýju. Við þurfum að horfa til langs tíma og nýta okkur vinnu við kortlagningu vatnasvæða og mat á ástandi þeirra varðandi framkvæmdir og forgangsröðun. Ísland þarf að geta sagt að fráveitumál séu í góðu horfi því að Ísland er matvælaframleiðsluland og ferðaþjónustuland og við þurfum heilnæmt umhverfi og góða ímynd. Fráveituframkvæmdir eru dýrar, miklu dýrari en þær voru áætlaðar þegar ríkið studdi þær á sínum tíma, kannski tífalt, sérstaklega vegna þess að það eru oft dýrustu verkefnin sem eru eftir, og þess vegna ekki óeðlilegt að við veltum fyrir okkur með hvaða hætti ríkisvaldið geti komið þar að.

Ég vil líka ítreka að við þurfum að byggja forgangsröðun okkar og ákvarðanir á vísindalegum grunni og rökum. Ég tel að við munum geta gert það í sambandi við Mývatn og Þingvallavatn. Helst þyrftum við að geta sett upp líkan af innstreymi og mat á hlut einstakra uppsprettna, köfnunarefni, fosfór, í vötnin. Það er margt sem við vitum ekki, en ég vona að sú vinna sem er í gangi muni skýra og hjálpa okkur í umræðunni og ákvörðunartökunni varðandi það.