144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

útvarpssendingar í Kelduhverfi og Öxarfirði.

222. mál
[18:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur rétt fyrir sér um hinar góðu óskir um að menn hafi skilið það sem hann var að segja. Í fyrsta lagi var svar hans svo flókið og tækniofið að menn þurfa verkfræðipróf, að minnsta kosti fyrri hluta próf í verkfræði, til að hafa skilið það. En ég þakka honum samt fyrir allar þær upplýsingar sem hann veitti um lárétt net og lóðrétt net og hringnet og net aftur á bak og áfram.

Eftir sem áður svaraði hann í reynd ekki spurningunni um það af hverju þeim óskum sem Almannavarnir hafa ítrekað sett fram hefur ekki verið hlítt. Það kom ekki fram í svari hæstv. ráðherra að þær aðgerðir sem hann hefði gripið til svari þeim. Við skulum ekki gleyma því að þessar ábendingar eða kröfur Almannavarna eru settar fram vegna þess að það er eldgos í grennd við þetta svæði.

Ef það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins að vera til taks á slíkum tímum þá veit ég ekki til hvers það ágæta útvarp er. Það mætti kannski bæta því við að hið sama gildir um hæstv. ráðherra.