144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

útvarpssendingar í Kelduhverfi og Öxarfirði.

222. mál
[18:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er sannarlega hlutverk hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að kenna okkur ýmsa þætti í landafræði og fleiru, það er góð upprifjun, það er eins og maður sé kominn hérna í nýjan landafræðikúrs. En ég verð að segja alveg eins og er, virðulegur forseti, ég er ákaflega óánægður með svarið. Þetta er hefðbundið svar, skrifað af Ríkisútvarpinu, sem er í senn kennsla í landafræði, eins og ég sagði áðan, hvað fjöllin heita og blandað inn í þetta fjarskiptatækni sem, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um, þyrfti a.m.k. fyrri hluta próf í verkfræði til að skilja.

Það sem kom hins vegar fram hjá hæstv. ráðherra var að mastrið féll á Viðarfjalli um síðustu áramót. Nú erum við komin fram til 3. nóvember þegar þetta svar er gefið. Hér kom innlegg frá hv. þm. Helga Hjörvar um að Bylgjan hafi náðst í bílaútvarpi á leiðinni frá Húsavík til Kópaskers, en við erum hér að tala um öryggishlutverk Ríkisútvarpsins. Í raun og veru, virðulegi forseti, get ég endað mína ræðu með því að spyrja hæstv. ráðherra einfaldrar spurningar og vona ég að hæstv. ráðherra svari henni: Er þetta þá komið í fullkomið lag?