144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

205. mál
[18:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra biðlundina með þingmanninum á þessum annasama degi.

Ég beini fyrirspurn til ráðherrans um raforkuverð til garðyrkjubænda sem við höfum oft og einatt rætt í þinginu. Uppi voru talsverð fyrirheit af hálfu flestra ef ekki allra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga um að gera gangskör að því að bæta úr. Það hefur auðvitað lengi verið um það rætt að mikilvægt sé að tryggja þessari atvinnugrein raforku úr framleiðslunni á lægra verði en verið hefur þegar menn hafa horft til þess að hér fá aðrar stórar atvinnugreinar raforku úr framleiðslunni á miklu lægra verði en garðyrkjan. Þetta getur orðið okkar stóriðja ef við stöndum rétt að uppbyggingu hennar.

Umræðan undanfarin missiri hefur fyrst og fremst snúið að dreifikostnaðinum, sérstaklega eftir að hann hækkaði mjög umtalsvert og garðyrkjubændur sýndu fram á að þeir gætu sjálfir dreift raforku til stórs hluta garðyrkjustarfseminnar í landinu með mun lægri tilkostnaði en verið var að krefja þá um.

Nú er ástæða til þess að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hann hefur stuðlað að því að á þessu ári fær garðyrkja nokkuð meiri framlög til niðurgreiðslna en var, ég hygg að það sé um 12% aukning á niðurgreiðslum frá því sem var á síðasta kjörtímabili, fer úr 240 milljónum ef ég man rétt í 270 milljónir eins og staðan er nú.

Þá virðist vera að fyrirætlanir hæstv. ráðherra um að innleiða jöfnun á flutningskostnaði muni á næstu þremur árum leiða til þess að garðyrkjan muni aftur þurfa að greiða inn í það kerfi liðlega 20 millj. kr., eða nærfellt allt það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur aukið í niðurgreiðslurnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé réttur skilningur.

Þetta stafar auðvitað af því að hæstv. ráðherra hefur breytt þeim fyrirætlunum sem uppi voru um að láta stóriðjuna taka þátt í því að borga jöfnunina. Kostnaðurinn leggst þá af miklu meiri þunga á heimilin í landinu og atvinnugreinar eins og garðyrkjuna en ella hefði verið. Ég vil spyrja hvort ráðherrann fyrirhugi einhverjar lagabreytingar eða aðgerðir hjá Rarik til þess að draga úr þeim kostnaði sem liggur á greininni og er augljóslega meiri en væri ef garðyrkjubændur tækju sig til og rækju sitt eigið dreifinet, a.m.k. þar sem þeir eru hvað þéttastir (Forseti hringir.) á svæðinu á Suðurlandi.