144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef fulla samúð með því að hv. þingmaður biðjist undan kennslu í líffræði enda er það ekki á mínu færi að veita slíka kennslu. Ég skal því reyna að afmarka svarið við það sem hv. þingmaður spyr nákvæmlega um.

Rétt er að rifja upp að 31. ágúst var samþykkt í ríkisstjórninni að veita 2 millj. kr. til Náttúrufræðistofnunar Íslands til að ná beinagrind úr hvalhræinu og koma henni í geymslu, þessari beinagrind eða því hvalhræi sem hafði rekið á land við Ásbúðir á Skaga. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með grindinni, sem er eign ríkisins, en frá upphafi málsins hefur verið samráð á milli umhverfisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns Íslands um málið.

Eftir að hreinsun beinagrindarinnar var að mestu lokið haustið 2011 var talið að það tæki að minnsta kosti 2–3 ár fyrir beinin að hreinsa sig þannig að hægt yrði að hefja forvörn og uppsetningu þeirra til sýningar. Því verður það að teljast eðlilegt í ljósi þessa að beinagrindinni hafi ekki verið ráðstafað til sýningar. Strax í upphafi málsins var ákveðið að kanna kosti þess að gera samkomulag við Hvalasafnið á Húsavík um uppsetningu og ótímabundna varðveislu beinagrindar steypireyðarinnar þar til Náttúruminjasafn Íslands yrði komið í framtíðarhúsnæði. Ráðuneytið hefur verið í samskiptum við Hvalasafnið á Húsavík vegna þessa máls frá upphafi og safnið hefur vissulega lýst sig reiðubúið að varðveita beinagrindina. Þá er til að taka, virðulegi forseti, að mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfisráðherra hafa nú ákveðið að beinagrind steypireyðarinnar sem rak á Skaga árið 2010 verði höfð til varðveislu hjá Hvalasafninu á Húsavík þar til Náttúruminjasafn Íslands verður komið í framtíðarhúsnæði. Hæstv. forsætisráðherra kynnti þessa ákvörðun opinberlega þann 18. október sl.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun að höfðu samráði við umhverfisráðuneyti, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands útfæra með hvaða hætti þessi ákvörðun verður framkvæmd.

Beinagrind steypireyðarinnar er ríkiseign eins og áður sagði. Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt með leyfi ráðherra að lána gripi til sýningarsafna sem rekin eru af öðrum en ríkinu. Náttúrufræðistofnun er vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafns og skulu stofnanirnar hafa með sér náið samstarf og hafa gert með sér samkomulag þar að lútandi en samkvæmt því skal það vera verkefni Náttúruminjasafnsins að gera varðveislusamninga sem tengjast lánum á gripum úr söfnum Náttúrufræðistofnunar á sýningar. Því verður það verkefni Náttúruminjasafns að gera þann varðveislusamning við Hvalasafnið á Húsavík sem hér um ræðir.