144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rekstur Hlíðarskóla.

224. mál
[18:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hlíðarskóli, áður Bröttuhlíðarskóli, var stofnaður árið 2001 til að þjónusta nemendur með alvarleg hegðunarfrávik og geðfatlanir. Skólinn heyrir undir grunnskólarekstur Akureyrar og er sérúrræði á vegum þess sveitarfélags.

Samkvæmt gögnum sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa borist frá skóladeild Akureyrar vegna framlaga á fjárlögum hefur þróunin undanfarin ár verið sú að umsóknum um skólavist fyrir nemendur með aðlögunar- og hegðunarvanda hefur fækkað en umsóknum fyrir nemendur með þroskaskerðingar og geðfatlanir samfara miklum hegðunarröskunum hefur hins vegar fjölgað. Þessir nemendur þurfa miklu meiri aðstoð til lengri tíma og algengt er að mikil fjölskylduvinna fylgi með.

Það kemur fram í áðurgreindum gögnum að Hlíðarskóli sinni að helmingi til meðferðarvinnu á þriðja stigi sem á að vera á hendi ríkisins samkvæmt lögum.

Um síðustu áramót voru 20 nemendur í skólanum og í meðferðarúrræðum. Tveir fjölskylduráðgjafar voru í fullu starfi ásamt kennurum við að sinna 20 nemendum í göngudeild. Það felur í sér ráðgjöf og viðtöl vegna nemenda sem eru í almennum grunnskólum á Akureyri. Fjölskylduráðgjafar skólans sinna fyrst og fremst þriðja stigs sérfræðiþjónustu, þ.e. meðferð fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra sem eru skráðir í Hlíðarskóla.

Á árinu 2012 nam rekstrarkostnaður skólans tæpum 84 millj. kr. Að frádregnu framlagi í fjárlögum upp á 12 millj. kr. gerði rekstraráætlun ársins 2013 ráð fyrir tæpum 89 millj. kr.

Samkvæmt lögum um grunnskóla frá 2008 er sveitarstjórnum og skólastjórum grunnskóla falin ábyrgð á sérfræðiþjónustu í grunnskólum sem nánar er útfærð í reglugerð frá 2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Í lögunum er gert ráð fyrir að sérfræðiþjónusta á vegum sveitarfélaga teljist einkum til fyrsta og annars stigs sérfræðiþjónustu, þ.e. til greiningar og ráðgjafar. Þriðja stigs sérfræðiþjónusta sem tekur til meðferðar er hins vegar á hendi ríkisins.

Hlíðarskóli hefur frá árinu 2009 fengið, eins og áður segir og kom fram í máli hv. þingmanns, árlega úthlutað 12 millj. kr. á fjárlögum. Um hefur verið að ræða tímabundið framlag sem hefur komið í gegnum 3. umr. fjárlaga. Hefur sú fjárveiting verið tekin af safnlið mennta- og menningarmálaráðuneytisins nr. 02-720-1.31 Grunnskólar, almennt — sérstök fræðsluverkefni.

Við afgreiðslu fjárstyrks á árinu 2011 sendi ráðuneytið erindi til fjárlaganefndar Alþingis þar sem óskað var upplýsinga um hvort við greiðslu framlagsins það ár ætti að skilgreina skilmála framlagsins í samningi við Akureyrarbæ þannig að gert væri ráð fyrir ótímabundinni fjárveitingu til reksturs skólans. Fjárlaganefnd brást ekki við þessari fyrirspurn ráðuneytisins þrátt fyrir ítrekun.

Til upplýsingar funduðu fulltrúar ráðuneytisins með fulltrúum Akureyrarbæjar í nóvember 2013 um málefni Hlíðarskóla. Á fundinum var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að stæði vilji til að sækja áfram um framlag til reksturs Hlíðarskóla bæri að beina þeirri ósk til velferðarráðuneytisins í stað mennta- og menningarmálaráðuneytis enda væri um að ræða meðferðarþjónustu sem heyrir undir heilbrigðiskerfið.

Í 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2014 er aftur gert ráð fyrir 12 millj. kr. tímabundnu framlagi af hálfu fjárlaganefndar til skólans sem greiða skal af safnlið mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort sveitarfélagið hafi sótt um stuðning við rekstur skólans til velferðarráðuneytisins eða hvort sveitarfélagið hafi eingöngu snúið sér til fjárlaganefndar fyrir næstkomandi fjárlagaár, en ekki er gert ráð fyrir framlagi til skólans í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.

Ráðuneytið er enn þeirrar skoðunar að fara eigi með greiðslur af hálfu ríkisins fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir í gegnum velferðarráðuneytið og hefur því að öllu óbreyttu ekki hug á því að gera þjónustusamning við sveitarfélagið um rekstur skólans.